
Þegar öllu er á botninn hvolft þá gegnir flugustöngin tveimur megin hlutverkum; koma línunni út með sómasamlegum hætti og styðja við baráttu þína þegar þú hefur tekið fisk. Þetta er einföld og góð skilgreining, punktur, málið dautt. Eða hvað?
Óli og María í Veiðihorninu fengu um árið (2006) Hardy á Englandi til að hanna með sér flugustöng fyrir íslenskar aðstæður, Hardy Iceland sem var öllu lengri en tíðkaðist almennt með einhendur, 9,6‘ og stífari, afl hennar var alveg fremst, þ.e. í toppinum. Fleiri hafa hannað stangir fyrir íslenskar aðstæður, JOAKIM‘S stangirnar eru stimplaðar þannig, meðal-hraðar með mjúkum toppi. Nielsen, þ.e. Birgir Þórsson stimplar sínar Powerflex stangir með hentar íslenskum aðstæðum, hröð stöng. E2 frá Scott var síðan hönnuð eftir forskrift Engilberts Jensens, mjúk í toppinn og kraftmikil niður í skaftið. Sem sagt; ég er á Íslandi og taki ég fyllilega mark á þessu þá þarf ég stífa stöng í lengri kantinum með mjúkum toppi sem er þetta frá því að vera miðlungs- og upp í hröð. Og hvernig veit ég að stöngin sem ég er með í höndunum sé þetta allt, ef það er þá hægt í einni og sömu stönginni?
Það verður seint sagt um framleiðendur og seljendur flugustanga að þeir séu hugmyndasnauðir í lýsingum sínum á eiginleikum stanga; mjúk og kraftmikli, djúp vinnsla,einstaklega hröð, aflmikil og hröð. Flestar lýsingar miða að því að lauma inn þeirri hugsun hjá veiðimanninum að hann geti kastað lengra, miklu lengra með viðkomandi stöng. Lengi vel var valið á flugustöng nokkuð einfalt, til voru þrjár skilgreiningar; Fast action, Medum action og Slow action og skilgreiningin var að sama skapi einföld:
- Fast action / hröð stöng sveigist mest og nánast eingöngu í efsta þriðjundi, þ.e. næst toppinum. Hentar best fyrir stærri (þyngri) flugur, þungar línur og í hreinskilni sagt, hentar betur þeim sem hafa unnið heimavinnuna sína í flugukasti vel, eru góðir kastarar. Allt gengur miklu hraðar fyrir sig og því þurfa tímasetningar í kastinu að vera nokkuð nákvæmar. Oftast notuð í veiði þar sem von er á stærri fiskum, stærri ám eða jafnvel strandveiði.
- Medium action / miðlungs hröð stöng sveigist alveg niður í annan þriðjung, þ.e. niður í miðju. Þessar stangir hlaða sig hægar heldur en fast action stangir og því gefst kastaranum meiri tími til að tímasetja aðgerðir í kastinu. Góð alhliða stöng sem hentar í ám, lækjum og í vatnaveiði sem ræður vel við flugur í ýmsum stærðum og línur frá #4 – #8. Langflestar stangir fluguveiðimanna falla undir þessa skilgreiningu.
- Slow action / hæg stöng sveigist alveg niður í fyrsta þriðjung, þ.e. alveg niður í haldið. Þessar stangir hlaða sig mjög hægt frá toppi og niður í hald og því þurfa menn að hafa góða þolinmæði og sjálfstjórn til að vinna með svona stangir. Allt of oft freistast menn (oftast byrjendur) til að flýta aðeins fyrir hleðslunni með því að beita meira afli heldur en stöngin í raun ber og því verður kastið oft á tíðum tómt klúður. Stöngin þarf sinn tíma til að hlaðast. Þurfi fast action stöng 1/3 af x-tíma (svignar í efsta þriðjungi) og medium action 2/3 af x-tíma (svignar í tveimur af þremur hlutum) þá þarf slow action stöng í það minnsta 1,5 af x-tíma til að svigna.
Sem sagt; action lýsir því hvar stöngin svignar undir átaki og hversu langan tíma það tekur hana að hlaða sig, ekki hversu mikið hún svignar, þá tölum við um mýkt hennar.
Ummæli
30.09.2012 – Árni Jónsson: Mér finnst einmitt ég hafa rekið mig á það, að hraðar stangir (og mið-hraðar sérstaklega) henti flestum og þá sérstaklega í logninu á Íslandi.
Svo hef ég líka tekið eftir því að sumir framleiðendur í hærri verðflokkunum eru hættir að tala í hefðbundnum hugtökum. S.d. flokka G.Loomis sínar stangir með “Taper” & “Power” eða tveimur mismunandi skilgreiningum. Taper segir þá til um hver hraðinn á “prikinu” er og Power um hvernig aflið vinnur og skilar sér í aflhleðslunni.
Scott aftur á móti talar um “Flex Profile” & “Recovery Speed” sem að mér finnst vera með betri skýringum sem að ég hef séð (og henta Íslenskum aðstæðum vel)
Sérstaklega hef ég rekið mig á “Fast-action” er langt frá því að vera það sama frá framleiðanda til framleiðanda. Máli mínu til stuðnings nefni ég eitt merki: Winston.
Mín ráðlegging til þeirra sem að eru að reyna að koma sér út úr þessum frumskógi framleiðanda, gerða, verðflokka og alls hins, er að byrja á að finna ódýra stöng frá framleiðanda “X” áður en að farið er útí fjárfestingu og prófa sig þannig áfram þar til að þú ert búinn að finna þann framleiðanda sem að þér finnst henta þínum stíl best. Svo er hægt að fara vinna sig upp í verðflokkum. Svínvirkaði fyrir mig.
Senda ábendingu