Flugustöng

Stöngin mín er; a) hröð, b) miðlungs-hröð, c)  hæg, d) stíf, e) miðlungs-mjúk, f) mjúk og ég nota hana í allt. Auðvitað er engin stöng sem nær þessu öllu, enda er þetta aðeins samansafn úr leit á Google yfir það hvernig menn lýsa bestu stöng sem framleidd hefur verið; stönginni sinni. Það hefur verið sagt um karlmenn og bíla að þeirra bíll er bestur; kemst lengst á lítranum, er aflmestur eða endist best á meðan konurnar okkar eiga annað hvort lítinn sætan, sparneytinn eða bara rauðann bíl.

Þegar ég byrjaði í fluguveiði var mér ráðlagt að fá mér miðlungs-mjúka stöng. Hún fyrirgefur þér mistökin var sagt við mig. Fyrsta stöngin mín, Abu Garcia Diamond í tveimur hlutum, hefur núna fengið ákveðinn heiðurssess í bílskúrnum. Ég opna hólkinn reglulega og kíki á hana, en tek hana yfirleitt aldrei með mér í veiði, nema þá sem varastöng. Vissulega var stöngin miðlungs og fyrirgaf mér næstum öll mistökin sem urðu á vegi mínum til að byrja með, ég var sáttur. Ég sótti mér leiðbeiningar varðandi köstin og fékk þá kommentið; fín byrjendastöng og leiðbeinandinn lagði áherslu á að ég ætti að tilta (halla) stönginni til hægri og láta stöngina renna frá fremra stoppi og aftur í það aftara. Þessi hreyfing hefur fylgt mér alla tíð síðan sem minn aðal-kaststíll jafnvel þótt ég noti standard fyrir öxl á styttra færi með léttri stöng.

Þegar mér síðan tókst að tæla konuna mína í fluguveiði, þá var henni bent á Airflo stöng (sett) sem væri tilvalið fyrir byrjendur. Eftir því sem ég best veit var hún mjög ánægð með stöngina en mér fannst hún frá fyrstu tíð allt of stíf (þ.e. stöngin) hún fylgdi mér ekki eins vel í rennsliskastinu mínu. Aftur á móti var hún frábær í standard yfir öxl og það varð einmitt aðalsmerkið í kaststíl konunnar. Maður beinlínis heyrir í ákveðnu fram og bakkasti hennar, svúpp, svúpp (Essence of Fly Casting II – Mel Krieger) beint yfir öxlina. Þeir sem séð hafa til okkar segja, hún kast miklu betur en hann og það er örugglega alveg rétt. Hún vandaði sig líka miklu meira í upphafi því stöngin hennar fyrirgaf henni ekki eins mikið og fyrsta stöngin mín, ég komst upp með villurnar.

Eins og með svo marga fluguveiðimenn höfum við uppfært stangirnar okkar. Hvort sem það var nú frekjan í mér eða aðeins tilviljun, þá erum við með eins stangir sem aðal-stangir í dag; miðlungs-mjúkar JOAKIM‘S MMX. Konan mín heldur áfram að kasta eins og klippt út úr kennslumyndbandi Mel Krieger (svúpp,svúpp) og ég held áfram með rennsliskastið mitt með fáeinum áherslubreytingum til batnaðar. Þegar ég svo tek í hraða stöng, segjum Scott S4 eða Sage One, þá finnst mér svolítið eins og ég sé með kústskaft (bara miklu léttara) í höndunum. Nei, bíðið aðeins áður en þið missið ykkur í hneykslan og formælingum. Það getur vel verið að ég sé auli og asni, en ég er ekki að hallmæla stöngunum sem slíkum. Það segir ekkert um gæði stanganna að menn hafi skiptar skoðanir á þeim, sú stöng sem hentar kaststíl einum getur verið sem kústskaft í höndum annars. Ástæða þess að framleiðendur senda frá sér margar mismunandi útfærslur stanga er einfaldlega sú að þarfir manna og stuðningur stanga við kaststíl þeirra er mismunandi. Fyrsta stöng manna hefur mjög mikil áhrif og mótar, oft fyrir lífstíð, kastið þeirra. Lengi býr af fyrstu gerð og mörgum reynist erfitt að breyta rótgrónum stíl þegar fram í sækir. Það er hægt að leiðrétta og þá eiga menn að nýta sér leiðsögn til þess hæfra manna, kastkennara sem geta litið út fyrir eigin uppáhalds stíl og leiðbeint með rýni til gagns. En hvað með; hröð, miðlungs eða hæg? Meira um það síðar.

Ummæli

26.09.2012 – Árni JónssonAllir góðir kastkennarar taka það einmitt fram að þetta er ekki klippt og skorið og allir þróa sér sín eigin stíl. Kennarar sem segja annað og byrja að segja þér hvað þú átt og átt ekki, hugnast mér ekki.

26.09.2012 – Þórunnawwwwwwww…… (Aðspurð skýrði Þórunn þetta með orðunum; ´Æ, hvað þetta er krúttlega sagt’)

2 Athugasemdir

  1. awwwwwwww…… (Aðspurð skýrði Þórunn þetta með orðunum; ´Æ, hvað þetta er krúttlega sagt’)

  2. Allir góðir kastkennarar taka það einmitt fram að þetta er ekki klippt og skorið og allir þróa sér sín eigin stíl. Kennarar sem segja annað og byrja að segja þér hvað þú átt og átt ekki, hugnast mér ekki.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.