Flýtileiðir

Taumurinn minn

Taumaefni

Vegna þráhyggju minnar í silungsveiði hef ég alltaf geta komist upp með að hugsa meira um þvermál taums heldur en slitstyrk hans. Ég viðurkenni það fúslega að ég á stundum í nokkrum erfiðleikum með að gera mér grein fyrir því hvaða taumur það er sem menn kalla 8lb taum. Er það 1x eða 2x? Slitstyrkur tauma er misjafn eftir framleiðendum og efnisgerð þeirra og því er ekki til nein ein góð regla fyrir samhengi þvermáls og slitstyrks. Það næsta sem maður getur komist reglu er að leggja einhverja töflu á minnið eins og þá sem má nálgast hér.

Þannig er að silungsveiðimenn, þ.e. þeir sem ástunda nokkuð hefðbundna vatnaveiði þurfa sjaldnast að hafa áhyggjur af því þótt þeir séu að nota 2x taum með 3x taumaenda. Að vísu er hnúturinn veikasti hlekkurinn en það má svona nokkurn veginn reikna með því að slitstyrkur svona taums sé eitthvað á bilinu 6lb – 8lb.og hentar ágætlega til að leggja fram flugur í stærðum frá #6 og niður í #16, spannar sem sagt nokkuð stórt bil í flugnavali. Sé aftur á móti ætlunin að veiða smærri flugur getur reynst nauðsynlegt að fara í grennri taum, 4x eða 5x. Notist þú við einþátta frammjókkandi taum má líka hugsa sér að klippa 3x taumaendann af og hnýta 4x í stað hans og hafa hann þá nokkuð lengri.

Þegar ég keypti mér mína fyrstu flugustöng, alveg rennandi blautur á bak við eyrun, þá var mér réttur 0x frammjókkandi taumur og spóla með taumaefni 1x. Hvort sem afgreiðslumaðurinn hefur séð á mér að ég væri hnútaböðull eða greip bara það sem hendi var næst þá var þetta taumurinn sem ég böðlaðist með fyrsta sumarið mitt í flugunni. Síðar meir hefur mér oft orðið hugsað til þess að eitthvert misræmi var nú samt í þessu hjá blessuðum manninum, því hann tók saman einar 20 ‚pottþéttar‘ silungaflugur í stærð #12 og #14 handa mér. Kannski engin furða að ég væri í vandræðum með að leggja þessi kríli fram með sómasamlegum hætti mitt fyrsta sumar.

Seinna eftir nokkurn lestur og grúsk á netinu fóru taumarnir mínir í megrun. Fyrst náðu þeir 1x, síðar 2x og nú veiði ég nokkuð jafnhliða með 2x og 3x, en það er ekki þar með sagt að ég hafi ekki prófað ennþá grennra en þá tók flugnavalið mitt í taumana og ég færði mig aftur til baka í framangreindar stærðir. Sem sagt; flugurnar mínar ráða þvermáli taumsins, ekki slitstyrkurinn eða vonir um 10lb. urriða með ofsóknarbrjálæði.

Í nokkrum komandi pistlum ætla ég að velta upp ýmsum flötum á tauminum og samsetningu hans.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com