Það eru til margar leiðir til að tengja taum við línu. Ég hef aðeins verið að gjóa augunum á það hvernig menn hnýta lykkju á taumana sína, þ.e. þeir sem gera það á annað borð því enn eru þeir til sem hnýta tauminn beint á línuna með tilheyrandi fórnarkostnaði við taumaskipti. En aftur að taumum með lykkjum. Margir hnýta Non slip loop á tauminn, en mér hefur alltaf vaxið sá, og raunar aðrir hnútar á taumum í augum og því hef ég alltaf vafið lykkjur á mína tauma.

Aðferðin er í sjálfu sér afskaplega einföld, allt sem maður þarf er hnýtingarþráður, keflishaldari og tonnatak. Ég byrja á því að skammta mér ríflegan enda af hnýtingarþræði út af keflishaldaranum. Síðan skammta ég mér u.þ.b. 8 sm. af taumaendanum og mynda lykkju úr honum á milli fingra hægri handar þannig að ég held bæði um tauminn og hnýtingarþráðin. Síðan gríp ég einfaldlega um lykkjuna með fingrum vinstri handar og sveifla haldaranum í hringi utan um tauminn þannig að þráðurinn vefjist upp eftir lykkjunni.
Þegar þráðurinn er kominn vel fram eftir lykkjunni bregð ég eins og einum til tveimur half-hitch á tauminn. Því næst læt ég nokkra dropa af tonnataki drjúpa á kaflann sem ég hef vafið og leyfi því að storkna til hálfs. Muna bara að vera ekkert að káfa í þessu alveg strax. Því næst vef ég þræðinum með sömu aðferð aftur til baka, bregð öðrum half-hitc á endann og svo aftur til baka fram að lykkjunni þar sem ég geng tryggilega frá honum og klippi af. Ef vill, þá má dreypa tonnataki aftur yfir allan vafninginn, bara gæta þess að hann leki ekki niður eftir taumnum.
Með þessu hef ég útbúið lykkju á tauminn þannig að ég er fljótur að skipta um og er ekki alltaf á nálum yfir því hvort fiskurinn sé að atast í hnútinum í stað flugunnar. Rétt að taka það fram að þessar lykkjur hafa aldrei gefið eftir hjá mér og virðast endast von úr viti. Muna bara að nota frekar hlutlausan hnýtingarþráð, helst gráann eða bage þannig að fiskurinn fari ekki að atast í vafningnum.
Senda ábendingu