Eins og sagt var í gamla daga á Gufunni; Þættinum hefur borist bréf. Ekki alls fyrir löngu birti ég játningu mína á gæftaleysi í Þingvallavatni sem hefur hrjáð mig frá upphafi veiða. Stuttu síðar barst mér bréf frá lesanda bloggsins sem kveikti enn frekar hjá mér vangaveltur um þau áhrif sem leiðbeiningar um veiði og veiðiaðferðir hafa haft á mig, jafnvel leiðbeiningar sem ganga þvert meginregluna mína; Regla nr. eitt, það er engin regla. Því er einfaldlega þannig farið að aðferð eins virkar ekki endilega hjá öðrum.
Þær voru ófáar lýsingarnar á veiðiaðferðum við Þingvallavatn sem beindu mér inn á þá átt að koma flugunni niður; þyngdar púpur og straumflugur, hægsökkvandi lína, sökk taumur og hægur inndráttur. Kannski klikkaði eitthvað eitt hjá mér í þessari ‚bestu‘ samsetningu og þess vegna varð ég ekki var við fisk, hver veit? Ekki ég í það minnsta. Samhliða gæftaleysinu minnkaði áhugi minn á vatninu, en eins og komist er að orði hér á eftir; En allt í einu þá small allt og nú hefur ferðunum fjölgað aftur í vatnið og enn hef ég ekki komið fisklaus heim úr því.
En að bréfinu sem mér barst. Ég fór þess á leit við sendandann, Jóhann Gunnlaugsson að fá að birta úrdrátt úr því á blogginu með innskotum frá mér og auðvitað var það auðsótt mál.
Sæll Kristján og takk fyrir skemmtilegt blogg
Las grein frá þér um veiðiferð á Þingvelli og langaði að deila minni reynslu. Ætla alls ekki að tala sjálfan mig upp en mér hefur gengið mjög vel á Þingvöllum. Hef stundað veiði þar í einungis 4 ár og má segja að ég hafi varla veitt fisk fyrstu 2 árinn þó svo að farnar væru margar ferðir. Murtur voru reyndar alltaf til í fluguna en það kom mjög sjaldan fyrir að ég næði Kuðunga eða Sílableikju. En eins og við erum þá þróast með okkur aðferðir og við lærum með tímanum og reynslan er það dýrmætasta við veiðar á Þingvöllum. Það hafa margar veiðihetjur komið að máli við mig og sagt mér hvað virkar best á Þingvöllum og hlustar maður og reynir að nýta sér það síðar. Í dag er hetjurnar reyndar orðnar ansi margar og segja manni misvísandi til. Ég las marga greinar og reyndi að fara eftir öllum ráðum sem mér voru gefin en allt kom fyrir ekki. En allt í einu þá small allt. Mín reynsla er að tími skipti miklu máli, ekki árstími heldur tími dags. Sá tími sem reynst hefur mér best er snemma morguns. Kominn á veiðistað kl 06. Veiði sjálfur til c.a hádegis og hætti þá oftast. Þetta er tíminn sem mér finnst að takan detti niður.
Hver kannast ekki við lýsingarnar af ‚brjálaðri‘ síðdegis og kvöldveiði í Þingvallavatni? Hér heyrum við af allt öðrum prime time hjá Jóhanni, mun líkara mínum uppáhalds tíma. Ég hef náð fiski í síðari hluta þessa tíma, rétt fyrir hádegið og rúmlega það. Raunar hefur tímabilið frá seinna kaffi og framyfir kvöldmat gefið mér á meðan aðrir forma það ekki einu sinni að mæta fyrir kl.21
Veiði eingöngu á flotlínu og langan taum. Lengi taum eftir dýpt á veiðistað og veiði stundum með 3 stangar lengdir (20-22) fet. Það er mjög leiðinlegt að kasta þessu og það verður varla gert með réttum kaststíl 🙂 Taumur finnst mér ekki skipta máli, veiddi nú síðast á þriðjudag, 3 júlí á 10 punda Maxima Ultagreen, því hann var í vasanum… …oftast er hann um 8 pund, þá get ég oftast nær rétt úr króknum þegar ég lendi í festu.
Taumfælni silungs er að mínu viti ofgert stórlega. Sjálfur fór ég eftir leiðbeiningum um 4 – 5 punda taum (c.a. 3X – 4X) vegna meintrar taumfælni bleikjunnar og auðvitað urðu flugurnar mínar þá fórnarlamb Þingvallaheilkennisins, urðu eftir á botninum þegar ég festi. Í seinni tíð hef ég, þar sem von er á festu leyft mér að nota tauma í stærðum 1X og 2X. Ég viðurkenni að svona langan taum nota ég ekki, ræð bara hreint ekki við hann svo vel sé en almennt séð fór fiskum að fjölga verulega þegar taumurinn lengdist hjá mér, ekki bara í Þingvallavatni.
Númer 1,2 og 3 er línan, hún þarf alltaf að vera strekkt og í beinni línu útfrá þér. Ef mikið rek er þá er um að gera að kasta styttra og þegar bugt er komið á línuna þá ertu hættur að veiða. Það þarf að vera bein tenging frá fingrinum sem línan dregst eftir og til flugunnar. Línan þarf alltaf að vera í beinni línu útfrá stangartoppnum. Ef að bugt er á línunni og bleikjan tekur þá finnur maður aldrei tökuna. Tökurnar eru ofur grannar og ef ekki er brugðist við strax þá er fiskurinn búin að spýta flugunni útúr sér. Sjálfur nota ég silkiteip á fingurinn sem flugulínan dregst eftir vegna þess að oft er fingurinn stamur og maður heldur að það sé taka en svo er ekki. Þú finnur muninn þegar þú prófar… … Inndráttur þarf einnig að vera mjög hægur.
Já, mikil ósköp hef ég reynt hæga inndráttinn. Ég þekki minn þröskuld í almennri þolinmæði og veit að ég missi mig aðeins upp á stökkið eins og gæðingur á spretti. Hægi inndrátturinn minn verður oft nokkuð rykkjóttur, brokkgengur í besta falli og e.t.v. aflabrögðin eftir því.
Það þarf ekki að kasta langt. Þegar stilla er á vatninu áttar þú þig fyrst á því hversu stutt fiskurinn er frá landi. Oft hægt að háfa hann upp… …mikilvægt að vaða ekkert meira en maður þarf. Þegar ég veiði Leirutá þá veð ég ekkert í fyrstu. Fiskurinn er mjög nálægt landi þarna og ótrúlegt hvað menn eru oft að veiða fyrir framan fiskinn. Ein ‘hetjan’ tjáði mér um daginn að ég væri að veiða allt of stutt frá landi, þyrfti að vaða út þar sem ég var vegna þess að fiskurinn væri á dýpra vatni. Þennan morguninn var mikið um fisk c.a 2-3 metra frá landi og hefði verðið fásinna að vaða útá hann.
Ég sem hélt á tímabili að fiskurinn í Þingvallavatni væri eitthvað öðruvísi heldur en annar silungur. Ófáar leiðbeiningarnar um það hvar væri best að vaða til að ná nógu langt út í rötuðu inn á leslistann minn og ég göslaðist auðvitað eftir þeim. En, þegar upp var staðið þá var kannski rúmlega stangarlengd eftir af línu + taumurinn langi eftir í vatninu þegar bleikjan tók, rétt áður en ég tók upp.
Nú í sumar finnst mér Krókurinn í smáum stærðum gefa mér langbest og litlir Peacockar 12-14. Nota mest Svartan Killer, Peacock, Krókinn, Watson fancy púpu eða bara eitthvað svart latex, þá er maður í fiski. Ég nota óþyngdar flugur á grunnu vatni c.a 1 metra djúpu og þyngri annar staðar. Hnýti nær eingöngu á beina öngla fyrir Þingvelli. Veiði oftast á stærð 10 snemma í júní og svo smækka ég. En þetta er allt tilfinning. Horfa á línuna og vera viðbúin töku.
Það er alltaf gaman að heyra frásagnir manna sem maður getur samsvarað sig með hvað varðar veiði og aðferðir. Það var kannski helsta ástæða þess að mig langaði að koma þessu bréfi Jóhanns á framfæri við lesendur, ég fann mig mjög sterkt með aðferðum og nálgun hans við Þingvallavatnið. Kannski er það þessi þörf manns til að fá staðfestingu þess að maður var e.t.v. ekki að gera allt vitlaust á sínum tíma þótt illa gengi. Hæfilega mikil fylgni við allar leiðbeiningarnar, smávægilegar breytingar og fínpússning varð til þess að þetta small saman.
Kærar þakkir Jóhann fyrir þitt frábæra innlegg.
Ummæli
24.07.2012 – Árni Jónsson: Dásamlegt að fá fleiri og fleiri til að deila visku sinni. Oft er talað um að Elliðavatn sé háskóli fluguveiðimanna, en persónulega finnst mér Þingvallavatn slungnara, svo ég tali nú ekki um fallegra og skemmtilegra. Afskaplega mikið sem að maður getur lært þarna og án þess að vera mikill sérfræðingur, þá held ég að Þingvellir séu með albestu veiðivötnum í heiminum.
Senda ábendingu