Þegar kvöldin eru eins falleg og þau gerast á þessum árstíma er fátt betra en bregða sér aðeins út af malbikinu og teyga náttúruna, t.d. á Þingvöllum. Við hjónin stóðumst ekki mátið og brugðum okkur á Vellina í kvöld. Dásamlegt veður og veiðimenn á hverjum tanga og tá.
Leynt og ljóst stefndum við í Vatnsvik þar sem gæftaleysi mitt í vatninu var rofið ekki alls fyrir löngu, nú átti að reyna að koma fiski á flugu frúarinnar. Við fundum okkur sitt hvora tánna, tangi væri oft sterkt til orða tekið, og teygðum aðeins á línunum. Ekki leið á löngu þar til ég setti í þessa líka fínu hryggnu, einhvers staðar á milli punds og tveggja, flottur fiskur og skömmu síðar heyrðist hljóð frá minni, þ.e. konunni; Kristján, hann er á og ánægjan og spenningurinn leyndi sér ekki, hængur, rúmt pund. Skömmu síðar heyrði ég; Ég er sko alveg með þetta þegar annar eins lág á bakkanum hjá henni, mín alltaf jafn hógvær.
Við urðu vör við töluvert af fiski eftir þetta, mikið nartað og einhverjar tökur en fleiri fiskar komu ekki upp á bakka, nema þá einn sem frúin setti í en sleppti. Einkennilegur fengur sem ég hef ekki séð tekin á flugu áður, dvergbleikja, ekki nema rétt um 8 sm. að lengd. Já, það er fátt sem frúin ekki fangar.
Frábært kvöld við Þingvallavatn og ekkert leyndarmál að allir fiskarnir sem við tókum komu á opinbert leynivopn okkar, Higa’s SOS. Vonandi hafa einhverjir aðrir veiðimenn tekið fisk, nóg var af báðum tegundunum við vatnið í kvöld.
Veiðitölur ársins
Bleikjur | Sleppt | Urriðar | Sleppt | Fj.ferða | Núllað |
---|---|---|---|---|---|
82 | 14 | 46 | 4 | 27 | 11 |
Ummæli
19.07.2012 – Þórunn Björk: Auðvitað verður maður hógværðin uppmáluð þegar maður loksins sigrar eitthvað vatnið tala nú ekki um eftir milljón og sjö ferðir þangað, svona h.u.b. En þessi litli var ótrúlega krúttlegur…hélt ég hefði krækt í spún, en hann hefði eflaust verið þyngri í inndrætti…spurning um að kíkja aftur í kvöld !
Auðvitað verður maður hógværðin uppmáluð þegar maður loksins sigrar eitthvað vatnið 🙂 tala nú ekki um eftir milljón og sjö ferðir þangað, svona h.u.b. En þessi litli var ótrúlega krúttlegur…hélt ég hefði krækt í spún, en hann hefði eflaust verið þyngri í inndrætti…spurning um að kíkja aftur í kvöld !