
Að skrá afla er eitthvað sem margir veiðimenn gera. Sumir nýta sér Veiðibók.is sem er snilld og alveg í anda veiðimanna; segja frá og deila. Sumir kvitta fyrir sig á bloggsíðum eins og Veiði.is, sami andi; segja frá og deila. Fjölmargir bloggarar segja svo ítarlega frá sínum ferðum og aflabrögðum, sjá t.d. Tenglar.
En svo eru þeir sem færa nákvæmar veiðibækur, minnisbók, Excel skjal eða hvað eina sem kemur að notum og er hendi næst. Að skrá staðsetningu, tíma, aðstæður og afla er allt til þess fallið að mynda gagnabanka sem nýtist mönnum fyrir síðari veiðiferðir. Því ítarlegri sem skráningarnar eru, því betri banki verður til. Nokkur grundvallaratriði sem gott er að skrá eru; Staðsetning, tími, veðurfar og vindátt, gerð flugu, stærð flugu, fiskurinn, stærð hans og kyn. Ítarlegustu skráningar gætu svo innihaldið atriði til viðbótar eins og t.d. hitastig vatns, tunglstaða, gerð botns, gróðurfar, línu #, taumur #, lengd taums og taumaenda.
Þegar svona upplýsingar hafa safnast saman í nokkurn tíma, fara menn oft að sjá ákveðna fylgni á milli atriða sem geta hjálpað til við val á stað og stund til veiða í ákveðnum eða sambærilegum vötnum. Auðvitað kallar þetta á nokkra ögun sem auðveldara er að mæla með en ástunda. Einhver skráning er þó betri en engin.
Ummæli
12.07.2012 Siggi Kr: Ég nota veidibok.is fyrir flest allar ferðir, svo og mitt frekar auðmjúka blogg en er síðan með alveg sérstaka skruddu þar sem ég skrái allt nákvæmlega fyrir Veiðivötn.
Svar: Jæja, eigum við ekki að láta lesendur dæma um ‘hið auðmjúka blogg‘ 🙂 Kíkið á málið og skjótið nú endilega kommenti á Svarta Zulu hvernig ykkur líkar bloggið hans. Ég hef nú alltaf verið frekar hrifinn af því.
Ég nota veidibok.is fyrir flest allar ferðir, svo og mitt frekar auðmjúka blogg en er síðan með alveg sérstaka skruddu þar sem ég skrái allt nákvæmlega fyrir Veiðivötn.