Þegar kemur að vötnunum sunnar Tungnár á Landmannaafrétti hafa Ármenn haldið sig við nafngiftina Framvötn. Mér hefur alltaf fundist þessi nafngift vel við hæfi, þau eru jú framan við Tungná á meðan Veiðivötnin eru handan hennar. Við hjónin lögðum af stað á fimmtudaginn upp á afrétt og komum okkur fyrir við Landmannahelli þá um kvöldið. Markmiðið; prófa nokkur hinna margrómuðu vatna sunnan Tungnár á föstudag og laugardag.

Við byrjuðum á því að renna inn að Herbjarnarfellsvatni, rétt vestan Landmannahellis. Við renndum svolítið blint í veiðistaði við vatnið en vindáttin sagði okkur að veiða frá bílastæðinu og til austurs, þ.e. sem næst mót vindi. Fyrsta snerting á flugu konunnar lofaði góðu, svo hressileg að henni var skapi næst að henda frá sér stönginni og leita skjóls, en fiskurinn lét ekki sjá sig. Eftir nokkurt þóf kom þó einn urriðatittuir á land hjá henni á mýflugu, en ég var jafn lánlaus og oft áður í sumar, ekki eitt einasta nart. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um 1,5 – 2 punda urriða í vatninu varð ekkert meira úr veiði í þetta skiptið og við héldum inn fyrir Landmannahelli í Löðmundarvatn.

Afli fyrstu tveggja daga

Grisjunaraðgerðir síðustu ára eiga að hafa skilað ‚miklum árangri‘ eins og segir í veiðistaðalýsingu Veiðifélags Landmannaafréttar um Löðmundarvatn. Ekki dettur mér í hug að efast um það, en hvernig voru þá fiskarnir í vatninu fyrir grisjun? Hver titturinn á fætur öðrum óðu við bakkann að vestanverðu og auðvitað varð frúin að taka eina til prufu á mýflugu. Ég… fékk ekki nart. Skv. tilmælum Veiðifélagsins var bleikjunni ekki sleppt þrátt fyrir að tilheyra undirmálsfiski, mjög skiljanlegt þar sem flest vatnanna eru verulega ofsetin bleikju. Áður en við fengum okkur kvöldsnarl kíktum við á Dómadalsvatnið en bleyttum þó ekki færi að þessu sinni. Þess í stað tókum við okkur pásu og fórum síðan aftur í kvöldstillunni inn að Herbjarnarfellsvatni og skiptum aðeins liði. Ég tók mig til og gekk inn með kverkinni að norðvestanverðu, frúin prófaði áfram austan bílastæðisins. Loksins tókst mér að fá eitt nart og skömmu síðar einn rosalega…. lítinn urriða á Kibba sem fékk líf. Frúin setti í einn af svipaðri stærðargráðu með Olive Nobbler.

Á laugardagsmorgun fórum við síðan í Frostastaðavatnið sem er nokkuð góð ávísun á veiði, mig var farið að þyrsta í að taka fisk. Við ákváðum að prófa fyrir okkur undan og austan við bílastæðið að norðan, gætum alltaf fært okkur annað síðar. En, við eyddum öllum deginum á þessum slóðum og tókum samtals 27 bleikjur í stærð frá undirmáli og upp í pundið. Ríflega helmingur þess sem kom á land var nýtanlegur til átu, öðru hefði verið sleppt undir eðlilegum kringumstæðum en minnug tilmæla Veiðifélagsins var allur afli hirtur. Ég tók minn hluta, 7 bleikjur á Higa‘s SOS, flestar við skerin undan hrauninu og svo eina mjög góða á Bleik og blá undan bílastæðinu síðdegis. Frúin tók sín 19 stk. á Peacock með orange skotti, alla utan eina framundan bílastæðinu.

Frostastaðavatn

Og þá var nú tímanum sem við höfðum gert ráð fyrir að eyða við Framvötnin lokið því veðurspáin lofaði okkur 8 m/sek. með rigningu á sunnudeginum. En, þar sem ekkert bólaði á þessu veðri um kvöldið framlengdum við dvölinni og renndum aftur inn að Frostastaðavatni á sunnudagsmorguninn í stað þess að halda heim á leið. Nú varð hraunið að suðaustan fyrir valinu. Við gengum inn með ströndinni og urðum vör við frekar litla fiska á leiðinni en þegar við komum að fyrstu víkinni í hrauninu dró veiðigyðjan svolítið stórkostlegt upp úr hattinum. Stórar og pattaralegar bleikjur í tugatali höfðu komið sér þarna fyrir í bunkum, leitandi í ferska vatnið sem seytlaði undan hrauninu. Að vísu höfum við séð svona bunka af bleikjum áður, en aldrei af þessari stærð og í þessu magni. Ég lét vaða á þvöguna með þungum Kopar Mola til að koma henni örugglega niður í dýpið og viti menn, þessi líka fallega bleikja tók með miklum látum.

Við klöngruðumst áfram inn í hraunið að næstu vík og þar var sama sagan. Feitar og fallegar bleikjur í bunkum innarlega í víkinni. Þar sem þetta var öllu aðgengilegri veiðistaður komum við okkur fyrir og byrjuðum að tína þessar fallegu bleikjur upp, hverja á fætur annarri. Svo rólegar voru þær þarna í heitu og björtu veðrinu að fátt fékk þeim haggað og við þurftum að hafa okkur við að fanga athygli þeirra með flugum sem sukku vel og æstu þær til töku. Flestar tóku Higa‘s SOS, Mýflugu og Blóðorm úr rauðum vír, samtals 11 stk., konan átta, ég þrjár. Þó við fegin hefðum viljað eyða lengri tíma við vatnið var okkur ekki til setunnar boðið, heimferð fyrir höndum og vinnudagur að morgni.

Framvötnin hafa alltaf skipað ákveðin sess í huga mínum sem einhver eftirsóknarverðustu veiðivötn á Íslandi, jafnvel verið mér ofar í sinni heldur en Veiðivötnin eða Arnarvatnsheiði. Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna þessu er svona farið, en ég er ekki frá því að konan hafi smitast af þessu áliti mínu. Hvenær förum við næst varð henni að orði á leiðinni heim. Vonandi sem fyrst, því umhverfi vatnanna er stórbrotið og aðgengið ágætt. Eini ljóðurinn sem e.t.v. má finna á vötnunum er að flest þeirra eru orðin ofsetin og grisjunar virkilega þörf. Kannski verður ráðin bót á því innan tíðar, hver veit.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 75 10 35 3 24 11

Ummæli

21.08.2012 Pétur Bjarki: Ég var á þessum slóðum í síðustu viku. Frostastaðavatn varð fyrir valinu fyrsta kvöldið og við fórum í þessar áðurnefndar víkur. Það kvöldið sá ég talsvert af bleikju og var mikið reynt við hana en við fengum hana ekki til að taka. Helmingur okkar fór svo aftur þangað daginn eftir ég gerði mér ferð í Ljótapoll (úff .. þvílíkt rangnefni það) ). Þar fékkst vel, aðallega á hvítan nobbler. Þeir fyrrnefndu lentu í ævintýralegri veiði í Frostastaðavatni og þrátt fyrir smælkið (sem á víst að hirða) komu nokkrar vænar á land. Það skipti í raun engu hvað henni var boðið en mest virtist þó koma á krókinn. Pollarnir sem með voru í för gleyma þessu seint. Alveg ótrúlega fallegur staður og ekki skemmdi veiðin fyrir.

Mig langaði að þakka þér fyrir góðar frásagnir af veiðistöðum – Þetta er sérstaklega fræðandi og skemmtilegt.

PBP.

12.08.2012 Pétur BjarkiSæll og takk fyrir góða veiðisögu. Ég var að velta fyrir mér hvort hraunið sem þú nefnir sé Námshraunið og beint fram af því?

SvarJá, einmitt Námshraun heitir það. Alveg stór skemmtilegar víkur inn í það og við eigum örugglega eftir að fara þangað aftur.

10.07.2012 Börkur Smári FlugukastnámskeiðHefur greinilega verið mjög skemmtilegur túr. Aldrei að vita nema maður reyni að komast þangað einhverntímann í sumar ;)

09.07.2012 Siggi Kr.: Flottur túr þetta – Ætla sjálfur að reyna að komast þangað helgina 21-22. júlí.

Svar: Já, við erum bara nokkuð sátt, þrátt fyrir alla tittina sem fylgdu með þeim ætu. M.a.o. ég á eftir að uppfæra lýsinguna á Frostastaðavatni sem ég geri vonandi á næstu dögum, breyti lýsingunni kannski í Framvötn og tilgreini þá hin vötnin sem eru á svæðinu, sjáum til. Góða skemmtun í Framvötnunum Siggi, hjálpaðu nú svolítið til við grisjunina 🙂

5 Athugasemdir

  1. Hefur greinilega verið mjög skemmtilegur túr. Aldrei að vita nema maður reyni að komast þangað einhverntímann í sumar 😉

  2. Sæll og takk fyrir góða veiðisögu. Ég var að velta fyrir mér hvort hraunið sem þú nefnir sé Námshraunið og beint fram af því?

  3. Já, einmitt Námshraun heitir það. Alveg stór skemmtilegar víkur inn í það og við eigum örugglega eftir að fara þangað aftur.

  4. Ég var á þessum slóðum í síðustu viku. Frostastaðavatn varð fyrir valinu fyrsta kvöldið og við fórum í þessar áðurnefndar víkur. Það kvöldið sá ég talsvert af bleikju og var mikið reynt við hana en við fengum hana ekki til að taka. Helmingur okkar fór svo aftur þangað daginn eftir ég gerði mér ferð í Ljótapoll (úff .. þvílíkt rangnefni það) ). Þar fékkst vel, aðallega á hvítan nobbler. Þeir fyrrnefndu lentu í ævintýralegri veiði í Frostastaðavatni og þrátt fyrir smælkið (sem á víst að hirða) komu nokkrar vænar á land. Það skipti í raun engu hvað henni var boðið en mest virtist þó koma á krókinn. Pollarnir sem með voru í för gleyma þessu seint. Alveg ótrúlega fallegur staður og ekki skemmdi veiðin fyrir.

    Mig langaði að þakka þér fyrir góðar frásagnir af veiðistöðum – Þetta er sérstaklega fræðandi og skemmtilegt.

    PBP.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.