Loksins, loksins. Mér er engin launung á því að upplýsa að ég hef aldrei náð fiski úr Þingvallavatni fyrr en í dag. Þrátt fyrir heldur dökka veðurspá í morgun, ákvað ég að hella upp á brúsann minn, lauma kexi í bakbokann og leggja land undir fót. Hafði í huga að renna á Þingvöll og prófa enn eitt svæðið, Lambhaga og þá e.t.v. Presthólmann, en þegar ég var kominn á staðinn var greinilega mjög margt um manninn í Haganum þannig að ég hélt bara áfram inn í Vatnsvik. Og hér má taka eftir; Vatnsvik (með i’i, ekki í’i) Sá leiði misskilningur hefur orðið á síðari tímum að víkin austan við Nautatanga heiti Vatnsvík, en það er ekki rétt, hún heitir Vatnsvik. En nóg um það, ég byrjaði að skyggnast í vatnið við Gjáarenda og brölti inn með Davíðsgjá, alveg inn að Hólmunum án þess að verða var við fisk. Veiddi samt alveg eftir kúnstarinnar reglum í dýpinu; langur taumur, þungar flugur, sökkva og draga lötur hægt.

Þegar inn að Hólmunum var komið skipti ég aðeins um takt, létti fluguna og þá varð ég fyrst var við fisk, murtu, sem tók Kibba á beinum krók. Ég get nú ekki sagt að ég hafi verið sérstaklega upprifinn af þessum afla, en fiskur er fiskur og áralangt fiskleysi mitt í Þingvallavatni var loksins rofið. Eftir að ég hafið fært mig aðeins til og skipt yfir í Higa’s SOS fór fjör að færast í leikinn. Samtals lágu þarna 6 murtur, sem öllum var sleppt þangað til að fyrsta kuðungableikjan tók fluguna með nokkrum látum. Hjartað tók auðvitað kipp og aulaglottið á mér hefur væntanlega ljómað í gegnum regndropana þegar ég landaði henni í nýja háfinn minn. Örlítið fleiri murtur til viðbótar, og svo ein bleikja til. Sem sagt; 12 murtur og 2 þokkalegar kuðungableikjur, stútfullar af mý- og steinflugum.

Það er ein regla í vatnaveiði og hún er sú að það er engin regla. Oftast er talað um að sökkva flugunum vel á Þingvöllum og draga lötur hægt inn, ég veiddi ekki þannig.
Miðað við allt lífið sem var í gangi á og yfir vatnsyfirborðinu valdi ég mér flugu sem var ekkert oft þung, lítill kúluhaus og ég dró hana nokkuð snaggaralega inn með rykkjum. Að vísu var ég með nokkuð langann taum, ríflega 12 fet,en þar með var nú allri samsvörun við Þingvallaregluna lokið, flotlína WF7.
Veiðitölur ársins
Bleikjur | Sleppt | Urriðar | Sleppt | Fj.ferða | Núllað |
---|---|---|---|---|---|
37 | 10 | 32 | 2 | 23 | 11 |
Ummæli
09.07.2012 Davíð: Hvar er hægt að nálgast þessa Higa’s SOS flugu? Ég hef ekki séð hana í þeim verslunum sem ég hef heimsótt undanfarið. Annars hefur Alma Rún verið að gera góða hluti fyrir mig síðustu daga í Þingvallavatni .. var mjög skæð í morgun á Snáðapallinum og landaði ég 9 bleikum með henni.
Svar: Þessi fluga hefur ekki ratað í verslanir hér heima, enn sem komið er. Henni skaut fyrst upp kollinum í vefverslun Orvis fyrir einhverjum mánuðum síðan eftir að hafa verið kynnt á nokkrum bloggsíðum í US og svo hér heima á þessu bloggi. Ég féll alveg fyrir henni og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með hana og mér sýnist að fleiri séu að kynnast því hve öflug hún er, sjá hér að neðan. Nú er bara lag fyrir veiðimenn að taka fram hnýtingarsettið eða hrista sparigrísinn og fjárfesta í slíku og hnýta nokkrar í stærðum #14 – #10, þær hafa reynst mér best.
05.07.2012 Ingólfur Örn Björgvinsson: Sæll Kristján og takk fyrir þitt ágæta blogg. Fyrir tilviljun las ég í gærkveldi um þessa ferð þína á Þingvelli og þar sem ég ætlaði að kíkja í vatnið í dag hnýtti ég nokkrar Higa’s SOS í boxið. Og þessi fluga gaf vel í kringu hádegið í dag þegar ég reyndi í Vatnsvikinu. Ég fékk samtals 12 bleikjur 1-3 pund, allt á þessa flugu. Hún er komin með fastan sess í mínu Þingvallaboxi. Takk fyrir mig!
Það er líka ein aðferð sem vert er að reyna á Þingvöllum en það er að veiða með tökuvara og hafa aðeins um 80-100cm af taum þar niðuraf með lítilli mýpúpu undir, t.d Zebra Midge #14-18
. Bregða svo við við minstu hreyfingu. Þetta hefur virkað fyrir mig við Vatnskotið og þar í kring þegar ekkert annað gefur.
Kveðja
Ingó
04.07.2012 Þorkell: Já, vötnin eiga það til að koma manni á óvart. Ég fór í lærdómsríka ferð í Þingvallavatn í júní. Hafði áður fengið þau ráð að það væri gott að veiða þar með hægsökkvandi glærri flugulínu til að vera viss um að flugan væri að veiða við botninn. Félagi minn var hins vegar með flotlínu og ekkert sérstaklega langan taum og hann veiddi vel en ég ekki neitt. Hér segi ég frá þessum hremmingum mínum. http://vefurkela.com/is/veieimal/veieisoegur/65-mistoek-til-ae-laera-af
Kveðja
Þorkell
Já, vötnin eiga það til að koma manni á óvart. Ég fór í lærdómsríka ferð í Þingvallavatn í júní. Hafði áður fengið þau ráð að það væri gott að veiða þar með hægsökkvandi glærri flugulínu til að vera viss um að flugan væri að veiða við botninn. Félagi minn var hins vegar með flotlínu og ekkert sérstaklega langan taum og hann veiddi vel en ég ekki neitt. Hér segi ég frá þessum hremmingum mínum. http://vefurkela.com/is/veieimal/veieisoegur/65-mistoek-til-ae-laera-af
Kveðja
Þorkell
Sæll Kristján og takk fyrir þitt ágæta blogg. Fyrir tilviljun las ég í gærkveldi um þessa ferð þína á Þingvelli og þar sem ég ætlaði að kíkja í vatnið í dag hnýtti ég nokkrar Higa’s SOS í boxið. Og þessi fluga gaf vel í kringu hádegið í dag þegar ég reyndi í Vatnsvikinu. Ég fékk samtals 12 bleikjur 1-3 pund, allt á þessa flugu. Hún er komin með fastan sess í mínu Þingvallaboxi. Takk fyrir mig!
Það er líka ein aðferð sem vert er að reyna á Þingvöllum en það er að veiða með tökuvara og hafa aðeins um 80-100cm af taum þar niðuraf með lítilli mýpúpu undir, t.d Zebra Midge #14-18
. Bregða svo við við minstu hreyfingu. Þetta hefur virkað fyrir mig við Vatnskotið og þar í kring þegar ekkert annað gefur.
Kveðja
Ingó
Hvar er hægt að nálgast þessa Higa’s SOS flugu? Ég hef ekki séð hana í þeim verslunum sem ég hef heimsótt undanfarið. Annars hefur Alma Rún verið að gera góða hluti fyrir mig síðustu daga í Þingvallavatni .. var mjög skæð í morgun á Snáðapallinum og landaði ég 9 bleikum með henni.
Þessi fluga hefur ekki ratað í verslanir hér heima, enn sem komið er. Henni skaut fyrst upp kollinum í vefverslun Orvis fyrir einhverjum mánuðum síðan eftir að hafa verið kynnt á nokkrum bloggsíðum í US og svo hér heima á þessu bloggi. Ég féll alveg fyrir henni og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með hana og mér sýnist að fleiri séu að kynnast því hve öflug hún er, sjá hér að neðan. Nú er bara lag fyrir veiðimenn að taka fram hnýtingarsettið eða hrista sparigrísinn og fjárfesta í slíku og hnýta nokkrar í stærðum #14 – #10, þær hafa reynst mér best.