Við hjónakornin skelltum okkur í Hraunsfjörðinn á föstudag eftir vinnu og komum okkur fyrir (næstum) inni í botni fjarðarins. Það kom okkur annars á óvart hve fáir voru á staðnum miðað við stórkostlegar lýsingar af aflabrögðum síðustu vikna. Við vorum það seint á ferðinni á föstudaginn að lítið tími varð til veiði, en konan setti þó út flugu og…. náði þeim minnsta jómfrúarfisk sem um getur. Hefði þessi litli kútur ekki kokgleypt Hérann hefði hann örugglega fengið líf. En, fyrsti fiskur frúarinnar í Hraunsfirði var staðreynd. Annars var ekkert sérstaklega mikið líf á vatninu þarna um kvöldið, nema þá rétt um það leiti sem hætta bar veiði. Ég er annars enn að velta því fyrir mér hvers vegna veiðitími í vatni svo langt utan byggðar sér bundin við 7 – 23.
Laugardagurinn byrjaði mildur og bjartur, hæg breytileg átt sem hélt því áfram allan daginn, þó mismunandi hægt. Við tókum daginn snemma, vel hvíld enda veiðum hætt samviskusamlega við tímamörk á föstudaginn. Til að gera langa sögu stutta, þá kom ekki kvikindi á land allan laugardaginn og okkur er ekki kunnugt um að neinn fiskur hafi komið á land hjá þeim sem voru við veiðar í firðinum sjálfum. Hvort stíflugengið hafi náð einhverju veit ég ekki, en þeir 6 – 8 sem voru í grennd við okkur riðu nú ekki feitum hesti frá þessum degi. Það er sagt að Hraunsfjörðurinn sé ekki allra og það á greinilega við mig. Oft hefur maður nú núllað, en yfirleitt verður maður þó var við eitthvert líf.
Það sem jafn lítið líf var að sjá á sunnudagsmorgun, pökkuðum við saman og færðum okkur suður á nesið, Veiðidagur fjölskyldunnar lokkaði okkur á ókunnar slóðir.
Veiðitölur ársins
Bleikjur | Sleppt | Urriðar | Sleppt | Fj.ferða | Núllað |
---|---|---|---|---|---|
35 | 10 | 30 | 2 | 20 | 11 |