
Að veiða særða flugu hefur trúlega tíðkast frá upphafi fluguveiða. Fyrir tækifærissinna eins og silunginn er særð bráð, síli eða seiði mun auðveldari bráð heldur en fullfrísk og þessu höfum við mennirnir komist að og reynum að líkja eftir. Aðferðin er ekki ýkja flókinn; koma flugunni, sem oft á tíðum er straumfluga, fram fyrir silunginn og draga hana inn með hléum þannig að hún falli (sökkvi) með reglulegu millibili eins og uppgefinn eða særður fiskur. Hvort menn dragi einu sinni eða tvisvar snöggt á milli hléa er auðvitað mismunandi, hver veiðimaður hefur sitt lagið á þessu. Galdurinn er einfaldlega að fá fiskinn til að eltast við særðu fluguna í stað ætisins sem syndir af fullum krafti undan honum. Silungurinn er þekktur í vatninu sem rándýr og ætið, næstum sama hvað það er, forðar sér þegar hann nálgast. Sumir veiðimenn ganga svo langt, helst í straumvatni, að láta bráðina leika sig alveg steindauða, hreyfa hana ekki neitt heldur láta strauminn um að bera hana inn á lygnur eða í bolla í vatninu.