
Nú er allur ís loksins farinn af vötnunum og við veiðimennirnir getum farið að skauta, eða öllu heldur látið flugurnar okkar skauta á vatninu. Þessi veiðitækni með þurrflugu hefur einhverra hluta vegna verið mest orðuð við straumvatn; þ.e. láta strauminn toga léttilega í fluguna þannig að hún skilji eftir sig röst í yfirborðinu og veki þannig áhuga fisksins. En þessa aðferð má alveg eins nota á kyrru yfirborði stöðuvatnsins. Tæknin sem beitt er við þetta er að koma þurrflugunni út og enda kastið með stöngina í lægstu mögulegu stöðu; alveg við vatnsborðið. Enginn slaki má vera á línunni og flugan verður að sitja hátt. Við tryggjum línuna, þ.e við höldum við hana með stangarhendinni því við ætlum ekki að draga hana inn heldur lyfta stönginni hægt en ákveðið upp í efstu stöðu. Trikkið við þessa aðferð er að lyfta stönginni hvorki of hægt né of hratt, flugan á að skauta á yfirborðinu og skilja eftir sig áberandi röst, ekki takast á loft. Ef vel tekst til, þá eru fáir fiskar sem standast flugun sem myndar röstina.