
Það getur kostað töluverða æfingu að ná tökum á þungri línu og/eða þungum flugum. Ég eins og margir aðrir hef gengið í gegnum tilraunir með flotlínu og sökktaum sem alltaf hafa viljað flækjast fyrir mér, endalausir vindhnútar og máttlausar framsetningar. Síðar eignaðist ég hægsökkvandi framþunga línu og eitthvað réttist þá úr málum.
Án þess að vita nákvæmlega hvernig og hvers vegna, tók ég síðar upp á því að breyta bakkastinu hjá mér þannig að ég notaði undirhönd frá upptöku eða framkasti í ávölum boga út til hliðar aftur í öftustu stöðu. Þegar ég náði svo tökum að að skeyta hefðbundnu framkasti við þessar tilraunir mínar fóru þungu flugurnar að komast út án þess að vera fastar í perlufesti vindhnúta.
Auðvitað var ég ekki að finna upp neitt nýtt eða byltingarkennt, ég var einfaldlega að læra the hard way að kasta með belgískri aðferð, Belgian Cast eða Oval Cast. Auðvitað hefði ég getað sparað mér allar þessar tilraunir með því að leita til kastkennara, en svona er maður nú einu sinni gerður, þarf alltaf að fara erfiðu leiðina að hlutunum.
Þessi kaststíll nýtist vel við þungar flugur eða þegar við erum með fleiri en eina flugu á taumi. Í bakkkastinu myndum við víðan boga sem hjálpar til að halda flugunum aðskildum þannig að þær flækjast síður. Þrátt fyrir að hamrað sé á þröngu kasthjóli til að ná markvissari köstum þá verðum við að taka til greina að með þungum flugum eða fleiri hefur nýr öflugur kraftur bæst við línuferilinn, þyngdaraflið. Efri línan, þ.e. sú sem flytur fluguna fellur hraðar en ella og því þrengist kasthjólið ósjálfrátt þegar á kastið líður. Kastið sem byrjar í víðum bug með stóru kasthjóli endar þannig í þröngu og mjög hröðu kasthjóli þegar kastið hefur náð fremstu eða öftustu stöðu.
Senda ábendingu