
Það eru ekki aðeins púpur sem verða líflegri með gúmmílöppum, straumflugur eins og t.d. Nobbler, Damsel og Wooly Bugger öðlast nýtt líf í vatninu þegar skotið hefur verið undir þær löppum. Þegar ég prófaði mig áfram með gúmmílappirnar skaut fyrst upp í huga mér; Bölvað vesen er þetta, Hvort á ég að setja lappirnar á undan eða á eftir? Undir eða ofaná? Hvernig á ég að ná þeim jöfnum til allra átta?
Eftir að hafa böðlast í gegnum allskonar leiðbeiningar, skoðað ógrynni af myndböndum þá varð mín niðurstaða sú að hafa fjaðurtöngina (Hackle Plier) tiltæka ásamt nokkrum afskornum drykkjarstráum í mismunandi sverleika til að hemja lappirnar á meðan ég hnýtti þær niður og umfram allt, lappirnar síðast eða næstum því.


Annars hjálpaði Davie McPhail mér mest eins og svo oft áður með að ná einhverju viti í vinnubrögðin. Hér að neðan má líta hvernig hann fer að því að festa lappir á Gnasher Sedge Hog (u.þ.b. á hálfu elleftu mínútu). Í meðförum Davie er þetta ekkert mál en hjá mér varð þetta hrein kvöl og pína, en æfingin er sögð skapa meistarann.