Annað grundvallaratriði þeirra Gammel feðga snýr að tímasetningu í kastferlinum okkar. Og eins og áður þá fylgir klippa með Carl McNeil með greininni þar sem hann rekur málið í smáatriðum.
Tímasetning er vandamál sem flestir veiðimenn glíma oft og iðulega við. Þegar við við skiptum á milli bak- og framkasts verðum við að hinkra örlítið við á meðan línan réttir úr sér áður en við leggjum af stað í framkastið. Ef við hinkrum of lengi myndast slaki á línunni og við sláum flugunni niður í vatnið eða jörðina að baki okkar. Ótímabær hröðun í framkastið verður aftur á móti til þess að enda línunnar er þröngvað í stefnubreytingu áður en hann hefur rétt úr sér og við heyrum þennan óþægilega svipusmell sem flest okkar könnumst við. Fræðilega séð er líka möguleiki að framkalla svipusmell í lok framkastsins, en staðreyndin er aftur á móti sú að það gerist sára sjaldan. Ástæðan er einföld; við fylgjumst betur með því í framkastinu að línan nái að rétta úr sér áður en við leggjum af stað í bakkastið; Ergo, tímasetningin okkar er betri í framkastinu. Ef við látum það nú eftir okkur að fylgjast eins vel með línunni í bakkastinu eins og við gerum í framkastinu, þá má bæta tímasetninguna þar til mikilla muna. Allt byggist þetta á ákveðinni þolinmæði, smá bið eftir því að línan nái að rétta úr sér. Þessi bið er í réttu hlutfalli við lengd þeirrar línu sem við erum að vinna með hverju sinni. Stutt lína, stutt bið. Löng lína, löng bið.
Senda ábendingu