
Það er lengi von á einum, miður október og enn gefa vötnin. Við hjónin brugðum okkur rétt út fyrir bæjarmörkin í ónefnt vatn eftir hádegið í dag. Lofthiti aðeins um 3°C, stinningskaldi en vatnið langt því frá farið að kólna neitt að ráði. Urðum fljótlega vör við, og þótti miður, að alveg nýverið hefðu veiðimenn verið á ferð og ekki hirt um að urða eða taka með sér slóg úr í það minnsta fjórum fiskum. En hvað um það, ferðin var farin í þeirri trú að enn væri urriði á ferð og það reyndist rétt. Fljótlega setti ég í einn um pundið með bústnum Peacock en sá slapp með ótrúlegri sporðatækni og hnykkjum. Beið ekki boðanna, þóttist reikna út hvert hann hafði stefnt þegar hann losnaði og smellti á reitinn. En þá var annar mættur á staðinn, tæp tvö pund sem lék svipaðar kúnstir á sporðinum en í þetta skiptið var ég viðbúinn og náði að halda strekktu í honum þar til hann var kominn á land, glæsilegur fiskur. Leið og beið nokkur stund þar til ég varð aftur var við ágætan fisk á orange Nobbler, en sá tók heldur naumt og slapp.
- Hornsíli, kuðungur og lirfur
En hvað er svo fiskurinn að éta þegar svona langt er liðið á haustið? Jú, í stuttu máli alveg nákvæmlega það sama og hann hefur verið að gera í allt sumar; hornsíli, kuðung og …. lirfur. Já, við nákvæma athugun á magainnihaldi komu í ljós 10 hornsíli, slatti af kuðung og nokkrar vorflugulirfur auk auðvitað sands og smásteina. Sem sagt, vatnið enn í fullu fjöri og ekkert sem bendir til að hrygning sé að fara af stað, fiskurinn ekkert að dökkna né dröfnur að stækka. Ætli viðmið okkar beggja, fisksins og mín sé ekki bara náttúran og veðurfarið frekar en dagatalið?
Senda ábendingu