Þegar við glímum við styggan urriða, hvort heldur sjóbirting eða staðbundinn fisk, þá luma reyndir veiðimenn á nokkrum hollráðum eins og t.d. að lengja verulega í og nota grennri taum heldur en venjulega og létta græjurnar almennt. Að nota stöng 4/5, flotlínu og taumenda ekki sverari heldur en 4x og hika ekki við að leita í boxinu að flugum í stærðum 16 til 22, umfram allt lengja tauminn upp í 12‘ eða lengri. Allt eru þetta atriði sem gott er að byrja á, ef þú missir þann stóra getur þú alltaf fært þig yfir í stærri græjur, það reynist oft of seint að færa sig niður í græjum þegar þú hefur styggt allan fisk í ánni með fallbyssunni. Svo er auðvitað ekki verra að ráða við nokkuð löng (+20 m) köst með þokkalegri nákvæmni þannig að við þurfum ekki þrjár, fjórar tilraunir til að koma flugunni fyrir fiskinn.
Almennt má segja að stærð veiðibúnaðar er alltaf vanmetin, þ.e. við virðumst ekki trúa því alveg að það sé hægt að veiða þann stóra (silunginn) á neitt annað en stöng 7/8 með flugum í stærð 2 til 6, að þessu leitinu erum við svolitlir berserkjar hér á Íslandi. Þegar við tölum svo um lax virðumst við oftar en ekki þurfa báðar hendur á stýri skriðdrekans #10, taum 0x ásamt ullarvöfðu koparröri og hákarlakrók í yfirstærð.