Göslarinn veiðir líka þegar hann veður út frá bakkanum, hræðir fiskana á undan sér, hendir beitunni út og göslast aftur upp á bakkann, setur stöngina í letingjann og bíður, en…… svæðið sem fiskurinn heldur sig á meðan kyrrð og ró hvílir yfir vatninu er mjög lítið m.v. það svæði sem hann kýs sér sem öruggt skjól verði hann fyrir áreiti. Það er í eðli silungsins að leita út frá bakkanum, út í dýpið ef hann styggist. Hann víkur sér ekki til hliðar, færir sig um nokkra metra og leggst þar fyrir, hann leitar út í öryggið og þar með stækkar svæðið verulega sem hann getur leynst í og veiðimaðurinn þarf að auglýsa agnið sitt á. Nákvæmlega sömu reglur eiga við fluguveiði, við getum þurft að halda kyrru fyrir í töluverðan tíma þar til fiskurinn kemur aftur inn á yfirráðasvæði okkar ef við förum ekki varlega.
