Loksins, loksins. Úlfljótsvatn hefur verið lagt að velli. Við hjónin fórum í Úlfljótsvatnið í gær ásamt veiðifélögum okkar og tókst að brjóta múr gæftaleysis í vatninu með sjö bleikjum frá tæpu pundi og upp í eitt og hálft. Það var ekki fyrr en vel var liðið á kvöldið að fiskurinn gaf sig að einhverju ráði, allir á Rolluna og Peacock. Frúin skákaði mér með fjóra, ég með þrjá en það hefði getað orðið jafntefli hefði ég ekki asnast við að missa eina væna þegar ég ætlaði að grípa hana úti í vatni. Datt í hug nýr málsháttur; Ekki er bleikja í hendi fyrr en á bakkann er komin. Veiðifélagar okkar voru ekki eins lukkulegir þrátt fyrir lofsamlegar tilraunir með flugur á floti og flugustöng; það gengur bara betur næst.
Uppfærði kortið af álitlegum veiðistöðum í vatninu ásamt því að bæta Rollunni við sem flugu júlí-mánaðar, sjá Úlfljótsvatn.