Ég er svo óheppinn að hafa ekki rakaraheyrn þ.e. geta skynjað hvað er sagt og brugðist við með réttum svörum án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað er verið að tala um. Ég annað hvort heyri allt eða ekkert, en ég er nú líka bara venjulegur maður. Fiskurinn aftur á móti heyrir og skynjar hvort sem honum líkar það betur eða verr. Buslugangur, steinaglamur og skellir í þungum flugum á yfirborðinu eru allt eitthvað sem fiskurinn heyrir með skynrákinni sem liggur eftir honum endilöngum og hann bregst við þessu. Stundandi vatnaveiði í grænu vöðlunum mínum (ég trúi því að grænt sjáist síður en grátt) hef ég oft upplifað það að fiskurinn syndir rétt við fætur mér án þess að skeyta nokkru um mig, svo fremi ég standi fastur í fæturna og ekki urgi í botngrjótinu. Já, allt í lagi, ef hann syndir rétt við fætur mér þá hef ég örugglega vaðið of langt en það er ekki punkturinn með þessu heldur sá að það er hægt að vaða varlega og af skynsemi þannig að fiskurinn fælist ekki, kasta létt þannig að flugan skelli ekki á yfirborðinu og skilja hundinn eftir heima (ef ég ætti hund). Við getum svo óhikað sest niður á bakkanum og rætt þetta frekar því fiskar heyra ekki mannamál niður í vatnið.

Góð og þörf áminning til allra veiðimanna.