Eftir vel ígrundaða yfirferð allra mögulegra og ómögulegra veðurspáa ákvað veiðifélagið að smella sér í Hlíðarvatnið í Hnappadal þann 16.júní upp á þá von að vindstyrkurinn yrði ekki alveg sá sami og spáð var. Í stuttu máli; spárnar gengu eftir og vel það. Þrátt fyrir afleit skilyrði tóks veiðifélögum að særa upp eina 9 fiska, bleikjur og urriða rétt um pundið í landi Hraunholts. Einn tekinn á svartan og gylltan Tóbý, ein á Pólska Pheasant Tail (með koparkúlu og rauðum kraga) og restin á maðk.

Ferðakort

Þjóðhátíðardagurinn rann upp með enn meira roki þannig að ákveðið var að renna í Borgarnes og taka veðrið þar. Þar sem við höfðum engan áhuga á að taka það veður með okkur, skildum við það bara eftir og ókum sem leið liggur (á ská með krókum) yfir Draga og í Svínadalinn ef ske kynni að lognið ferðaðist ekki eins hratt yfir á þeim slóðum. En, nei ekki varð sú raunin þannig að haldið var áfram fyrir Hvalfjörðinn, inn Kjósina og upp að Þingvallavatni sem lofaði góðu megnið af Grafningum. Hvað sem segja má um nýja svæðið á Veiðikortinu, Ölfusvatnsvík, þá er þetta nú ekki hlýlegasta svæði landsins þannig að við héldum áfram að Úlfljótsvatni (stutt stopp, samlokur og djús) og þaðan niður á Suðurlandsveg í átt til Reykjavíkur, en… sagan er ekki öll. Það er nefnilega hægt að skjótast af Suðurlandsveginum yfir í Krísuvík um Bláfjöll, sem við og gerðum. Næstum logn og blíða, hlýtt og hið ákjósanlegasta veður þannig að við komum okkur fyrir við Lambahaga, Vatnshlíðarmeginn og settum út færi. Eftir smá tilraunir með einhverjar flugur, endaði ég á því að setja Rolluna undir og viti menn, fjögurra punda bleikja greip tækifærið og festi sig kyrfilega á hjá mér en þar með er líka sögum af veiði að mestu lokið fyrir utan tvo titti sem gáfu sig veiðimönnum á vald í dag (18.) annar á svartan Buzzer en hinn á maðk. Trúlega eru þessir fiskar einhverjir dýrustu fiskar sumarsins, sé allt talið; veiðileyfi í Hlíðarvatni og bensínkostnaður tveggja bíla með fellihýsi í eftirdragi um meira eða minna allt suðvestur horn landsins, en gaman var þetta nú samt.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.