
Hver kannast ekki við eftir nokkur köst með nýrri flugu að hausinn á henni fer að láta á sjá, jafnvel rakna upp? Í verstu tilfellunum var eins og kötturinn hefði gripið fluguna og tætta af henni vængi og kinnar. Þannig var því nokkuð farið með mig í það minnsta þegar ég var að byrja fluguveiði. Fyrst í stað fannst mér líklegast að ég væri að ofbjóða flugunum, sérstaklega þeim ódýrari sem ég keypti, en síðar fór ég aðeins að skoða betur hvernig fráganginum á hausnum á þeim væri háttað.
Oftar en ekki var lakkið sparað og jafnvel stóðu endar lélegra hnúta út úr. Þegar ég svo fór að hnýta sjálfur, var kominn upp á lagið með alvöru endahnút, staðsetti hann rétt á hausnum (aftast) og lakkaði gaumgæfilega yfir, þá fóru flugurnar mínar að endast betur. Með tíð og tíma náði ég síðan lagi með fínni hnýtingarþráð og þá smækkuðu hausarnir enn meira og auðveldara var að ná þéttu yfirborði á þá með færri umferðum lakks.