Froða á yfirborði vatns, hvort heldur í straumi eða á lygnu getur gefið okkur töluverðar upplýsingar ásamt því að aðstoða okkur við veiðarnar.
Þar sem froða flýtur í straumi getum við verið nokkuð viss um að ætið flýtur á svipuðum slóðum. Froða á vatni ber með sér ógrynni lífvera sem silungurinn sækir í og við ættum ekki að láta fram hjá okkur fara. Oftar en ekki gefa litlar þurrflugur eða léttar púpur sé þeim kastað í eða við froðuna. Það sama á við um froðu sem berst með straumi auk þess sem hún segir okkur til um hvar aðal straumur árinnar/lækjarins liggur og hjálpar okkur þannig að stemma ‚drift‘ flugunnar við hraða straumsins og ná þannig eðlilegum hraða á fluguna.