Að öllu jöfnu er fengsælast að veiða stutt frá bakkanum þar sem fiskurinn heldur sig en ýmsar ástæður valda því að fiskurinn leitar út í dýpið. Í miklum hita þegar vatnshitinn rís einna hraðast á grynningum, leitar fiskurinn þangað sem hitastigið er jafnara, kaldara. Mikil sól hefur sömu áhrif, þ.e. birtufælinn fiskur eins og urriðinn sækir út í dýpið. Síðan er það kuldinn á veturna sem hrekur fiskinn smátt og smátt út í dýpið þegar grynningarnar leggjast í auðn og frjósa að lokum.
Það er ekki fyrr en grynningarnar hitna og lífríkið tekur aftur við sér að silungurinn hreyfir sig upp á við aftur. Fram að þeim tíma, sem getur verið nokkuð frameftir vori, verðum við að egna fyrir hann í dýpinu. Til að veiða dýpið getum við þurft að beita einni eða samspili fleiri eftirfarandi aðferða:
- Nota þyngdar flugur
- Nota sökklínu
- Nota sökktaum

Þyngdar flugur eru væntanlega algengasta leiðin til að ná botninum. Við þekkjum kúluhausa af ýmsum gerðum og blý-þyngdar flugur, sumar hnýttar á mjög þyngda öngla. Eitt er það sem margir láta hjá leiðast að huga að og það er lögun flugunnar. Það eru engin ný vísindi, eins og Pheasant Tail sannar, að grannar, rennilegar flugur sökkva alveg eins vel og þær sem eru bústnar og í yfirþyngd. Þynging PT er í raun sáralítil samanborin við miklar blý- eða tungsten þyngingar stærri flugna.
Að kasta bústnum, þungum flugum getur kallað á nokkuð stórtækar breytingar á kaststíl og hefur því oft vafist nokkuð fyrir byrjendum, já og lengra komnum. Algengustu silungastangir eru gerðar fyrir línur 5-7 og sem slíkar eru þær ekkert sérstaklega heppilegar fyrir þungar flugur. Til að ráða við þyngri flugur þarf að kasta hægar, lengja kastferilinn og umfram allt hemja sig í kröftugum köstum og fjölda falskasta. Slíkt eykur aðeins á flækjustigið og þá meina ég raunverulegar flækjur.

Þegar við veiðum á miklu dýpi, njótum við þess að geta farið nær fiskinum heldur en ella. Þetta helgast af því að við fjarlægð okkar frá fiskinum í láréttu plani bætist dýpið niður á hann. Óhefðbundnari leið, í það minnsta hér á Íslandi, er síðan Tékkneska leiðin þar sem þyngd flugunnar og togkraftur vatnsins er notaður til að hlaða stöngina fyrir mjög stutt köst, ef þá nokkur. Oft líkist þessi aðferð dorgveiðum með föstum spotta á priki.
Sjálfur hef ég skoðað rækileg hnýtingar á hóflega þyngdum „fyrirsætuflugum“ þ.e. mjónum sem kljúfa vatnið vel og sökkva því auðveldlega án þess að íþyngja köstunum. Ég á í fórum mínum nokkrar slíkar eftir veturinn og vorið verður látið ráða hvort þeim fjölgar í sumar.
Senda ábendingu