Þegar púpurnar fara á kreik í vatninu er um að gera að taka vel eftir hegðun þeirra, litbrigðum og því hvar í vatnsbolnum þær halda sig. Svo má prófa sig áfram með veiðiaðferð.
Niðurtalning Þessi aðferð við að skanna dýpið sem veitt er á getur komið sér mjög vel þegar veitt er með púpum. Hún fellst einfaldlega í því að velja sér ákveðna tölu til að byrja með og telja rólega upp að henni þegar línan hefur lagst á vatnið. Þegar tölunni hefur verið náð byrjar maður inndráttinn eins og maður telur hæfa (hægt, miðlungs, hratt, stutt, miðlungs, langt). Í næsta kasti hækkar maður töluna um einn þannig að flugan sekkur eilítið dýpra og síðan endurtekur maður þetta í hverju kasti. Með þessu næst markviss skönnun á dýpinu eða allt þar til maður finnur fyrir botninum. Aðal trikkið er síðan að muna töluna sem maður var komin upp í þegar fiskurinn beit á.