Flýtileiðir

Haustverkin

Þegar veiðitímabilinu lýkur á haustinn er rétt að yfirfara búnaðinn og ganga frá honum til geymslu. Margir nota tækifærið til að lagfæra það sem látið hefur undan á vertíðinni og síðast en ekki síst, setja saman óskalistann fyrir jólinn. Hér á eftir fara nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga þegar vertíðinni lýkur. Vel að merkja, geymslan á að vera hæfilega köld og þurr „Store in cool and dry place“.

Byrjum á stöngunum. Áður en stangirnar fara í geymslu er vert að gefa gaum að lykkjunum. Lausar eða skaddaðar lykkjur skal lagfæra eða skipta um. Ójöfnur og brot í lykkjum skemma girni og línur á mjög skömmum tíma. Rétt er að þrífa stangirnar sjálfar með volgu sápuvatni, tannbursta úr lykkjunum og strjúka létt yfir þær með bóni. Fyrir nokkru fékk ég ábendingu frá eldri veiðimanni um að láta lönd og leið allar hugmyndir um að kaupa sérstakt bón; „Notaðu mælaborðahreinsi frá Sonax, bæði á stöngina og flugulínuna“. Ráð sem hefur reynst mér vel, viðnám stangar og línu minnkaði verulega, mun betra rennsli. Þegar þú ert búinn að bóna stöngina er eins víst að eitthvað af bóninu hefur lent á korkinum. Þá er einmitt tilvalið að þrýfa hann með svampi og volgu sápuvatni. Korkur er ekki viður, heldur börkur og þolir ekki mikla fitu eða viðarolíu þannig að forðast ætti slíka meðhöndlun. Ef korkur er orðinn verulega ljótur má strjúka lauslega yfir hann með blautum, fínum sandpappír og venjulegri handsápu.

Best er að geyma stangirnar í hólkum sem komið er fyrir á öruggum stað, helst inni í skáp eða föstum á vegg. Lausar stangir í geymslum eiga það til, eins og allt annað að detta á gólfið og þá er eins víst að stigið verði á þær og …… Sjálfur útbjó ég mér hólk úr 70mm svörtu plaströri sem geymir kaststangirnar okkar hjóna, hólkur sem nýtist mér á ferðalögum og sem geymsla á veturna.

Kasthjól þarf yfirleitt að annast meira en fluguhjól. Eðlilegt viðhald er einfaldlega að þrýfa þau og smyrja reglulega. Gættu þess vel að ná burt öllum sandi sem sækir sérstaklega í smurning. Vatn er ekki óvinur veiðihjóla, salt er það aftur á móti. Skolaðu vel af hjólinu í volgu vatni og leyfðu því að þorna áður en þú smyrð það upp á nýtt. Notkun plastefna í veiðihjólum hefur aukist mikið og því ætti að gæta þess að nota sýrulausa olíu og feiti (t.d. Vaseline). Minna er oft betra en meira, of mikil feiti dregur að sér sand og óhreinindi. Áður en þú gengur frá hjólinu, vertu viss um að taka bremsuna alveg af. Bremsa á hjóli getur skekkt legur og valdið því að allt sitji fast næsta vor.

Sumir ganga svo langt að henda öllu girni í lok veiðitímabilsins, segja að það lifi ekki veturinn, verði ónýtt að vori, stökkt og slitni við minnsta átak. Allt er þetta rétt og satt, upp að vissu marki. Gott girni geymist auðveldlega yfir veturinn sé það á annað borð ekki þegar orðið dapurt. Gættu þess aðeins að hlífa því fyrir sólarljósi og það sé ekki rakt þegar það fer í geymslu. Ég rak augun í grein þar sem veiðigúrú mælti með því að taka girnið af hjólinu, renna því í gegnum klút vættum í silicone hreinsiefni og setja það upp á lausa spólu og geyma það þannig yfir veturinn. Er að spá í að prófa þetta sjálfur í vetur. Silicone á víst að koma í veg fyrir að olíurnar gufi eins hratt upp úr girninu sem er ein helsta ástæða þess að það skemmist.

Fluguhjólin okkar eru yfirleitt betur varin en kasthjólin en auðvitað verðum við að sinna almennum þrifum á þeim eins og öðrum búnaði. Meira að segja dýrustu hjólin þurfa sitt viðhald, ekkert síður en þau ódýru. Gættu að smurningi og þurrkaðu vel öll óhreinindi utan af hjólinu. Þá kemur sér stundum vel að vera með tuskuna úr bóninu fyrir stangingar við höndina.

Hvort sem við erum að ganga frá flugulínunni okkar til geymslu yfir vetur eða aðeins fram að næstu veiðiferð, þá skal alltaf hugsa vel um hana. Haltu línunni hreinni með því að þvo hana reglulega upp úr volgu sápuvatni og bónaðu hana (sjá komment hér að ofan um Sonax). Það fyrsta sem ég skoða er samsetning lykkju við flugulínu. Ef minnsta brot er komið í samsetninguna þarf að lagfæra hana eða skipta um. Brot í samsetningu getur hleypt vatni að kjarnanum sem ruglar þyngd hennar. Og nú koma tiktúrurnar í mér (ykkur er frjálst að vera ósammála); Ekki nota tonnatak til að gera við línur, lykkjur eða tauma. Tonnatak verður stökkt þegar það þornar og brotnar á mjúku yfirborði. Sjálfur nota ég lím sem ætlað er fyrir tjarnardúka (Oase contact) sem harðnar ekki að fullu. Annað lím fyrir PVC hentar örugglega eins vel.

Hörðustu fluguveiðimenn segja að aldrei skuli geyma línur á kasthjólum vegna þess að allar línur „muna“ að meira eða minna leiti og vilja því hringa sig í köstum eftir einhverja geymslu. Það er minni hætta á svona hringamyndun á ‚Large Arbor‘ hjólum og þar sem rífleg undirlína er til staðar, en samt er best að hringa línuna út af hjólinu í viðráðanlega hönk u.þ.b. 20 sm víða og geyma hana þannig yfir vetrartímann. Og auðvitað gætum við þess að fluglínan fari aldrei rök í geymslu eða verði fyrir aðkasti sólar.

Vöðlurnar okkar eru oftast af tveimur gerðum; Neoprene eða öndunarvöðlur. Áður en öndunarvöðlurnar eru settar í geymslu er rétt að þvo þær skv. leiðbeiningum framleiðanda þ.e. ef það er í lagi yfir höfuð og rúlla þeim upp til geymslu. Ekki brjóta þær saman því brot geta framkallað leka.

Neoprene vöðlur eru þyngri viðfangs, ekki má setja þær í þvottavél, notið milda sápu og mjúkan bursta til að fjarlægja erfiðustu blettina og skolið vel af þeim með köldu vatni. Vöðlur með áföstum stígvélum er gott að hengja upp á hvolfi og þá gjarnan þar sem sól nær ekki til.

Í lok sumars hefur filtið á vöðluskónum okkar eyðst eitthvað og því er rétt að skoða það sérstaklega vel áður en gengið er frá þeim fyrir veturinn. Ýmsar skóvinnustofur geta verið okkur innan handar við sólun vöðluskóa og stígvéla.

Yfirleitt láta spúnarnir okkar aðeins á sjá yfir eftir sumarið. Ryð fer að gera vart við sig, krókar deigast eða jafnvel brotna. Skiptu um þríkrækjur og hringi sem eru ónýtir og strjúktu af spúnunum með klút vættum í maskínuolíu (saumavélaolíu). Ekki fjarlægja ryðbletti með vírbursta eða sandpappír, það kallar eins fram meira ryð næsta sumar.

Hér gefur að líta einn algengasta orsakavald myglu í veiðiboxinu. Ekki gleyma að yfirfara flotin, tæma þau sem hægt er af vatni og henda þeim sem eru brotin. Rakinn sem flot smita frá sér í geymslu getur skemmt ýmsa góða og verðmæta muni á einum vetri.

Það er ýmislegt annað sem fylgir okkur, s.s. háfurinn. Hvort sem hann er úr málmi eða timbri, þá þarfnast hann viðhalds og eftirlits. Háfar úr málmi eiga það til að fyllast af vatni sem menn ættu að reyna að tappa af áður en þeim er komið í geymslu. Tréháfa ætti að olíubera á hverju hausti með góðri viðarolíu (tekkolíu) og munið líka eftir að þrífa netið með mildum þvottalegi.

Og að lokum er hér eitt sem ekki á að setja í geymslu yfir veturinn. Sem mikill áhugamaður um fluguhnýtingar mæli ég ekki með að pakka fluguboxinu niður fyrir veturinn. Hafðu það á vísum stað, hnýttu þær sem vantar í safnið, prófaðu einhverjar nýjar og farðu reglulega yfir boxið því þig vantar örugglega alltaf einhverjar skemmtilegar í safnið.

Nú er það svo að svona samantekt getur verið eins manns verk, en efnið kemur víða að, úr bókum, af netinu eða beint frá einstaklingum. Of langt væri að telja upp alla viskubrunnana, en Tryggvi Hilmars. fær þakkir fyrir punkta og ábendingar um efni á bloggið.

2 svör við “Haustverkin”

  1. Í lok árs « FLUGUR OG SKRÖKSÖGUR Avatar

    […] póstarnir frá upphafi hafa verið; Vatnaveiði, Fæðan, Haustverkin, Orðalisti, Uppskriftir og Fiskurinn. Þetta styður við þann grun minn að áhugafólk um […]

    Líkar við

  2. Eru menn að pakka? « FLUGUR OG SKRÖKSÖGUR Avatar

    […] tók saman í fyrra með nokkrum ábendingum um frágang og geymslu veiðigræja. Kíktu á hann hérna. Like this:LikeBe the first to like this […]

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com