Fluguveiði í vötnum á sér langa sögu, einna helst á Bretlandseyjum en það var ekki fyrr en upp úr miðri síðustu öld að menn fóru að kynna sér með markvissum hætti mismun fluguveiða í ám og vötnum. Hér á landi hefur orðið veruleg aukning í vatnaveiði síðustu ár. Engu að síður eru ennþá 80% veiðimanna sem hugsa mest um fluguveiði í ám. Af þeim er ríflega helmingur sem ekki formar að veiða í vötnum, aldrei.  Kannski ráða hér einhverju þau ummæli veiðimanna að vatnaveiði sé ekki allra því hún krefjist kunnáttu og innsýnar í atferli fisksins, eitthvað sem er ekki eins áríðandi í ám. Nú er ég lítið dómbær á þessar fullyrðingar, hef lítið sem ekkert stundað veiði í ám, en vissulega kannast ég við þá tilfinningu sem hreiðrar um sig innra með mér þegar ég kem að vatni í fyrsta skiptið og horfi yfir víðáttuna; Andsk…, hvar ætli hann haldi sig?

Þrátt fyrir áberandi skort á bókum um fluguveiði í vötnum er hægt að viða að sér ógrynni fróðleiks um vatnaveiði á ýmsum stöðum.  Hér á eftir ætla ég að leitast við að koma í orð einhverju af þeim ráðum og leiðbeiningum sem ég hef sankað að mér úr riti og ræðu síðan veiðibakterían greip mig. Mögulegar geta þessar leiðbeiningar orðið einhverjum stuðningur í að svara spurningunni hér að ofan. Munið aðeins eitt, þetta eru ekki reglur fyrir vatnaveiði, aðeins leiðbeiningar. Vel að merkja, það er aðeins til ein regla í veiði og hún er; Það er engin regla.

    1 Athugasemd

    Lokað er á athugasemdir.