Ekki dvelja of lengi á hverjum stað. Jafnvel þótt þú hafi náð þér í pottþéttar leiðbeiningar um besta staðinn í vatninu, þá geta allir staðir brugðist. Ef ekkert gerist, ekkert lífsmark og engar tökur, þá er kominn tími á breytingar. Gott er að:
- færa sig aðeins um set
- veiða dýpra
- nær bakkanum
- í kantinum
- draga með breyttri aðferð
Þú getur alltaf komið aftur á ‚besta‘ staðinn ef ekkert gefur annars staðar. Umfram allt, breyttu til.
En svo eru auðvitað til undantekningar eins og konan mín sem heldur oft kyrru fyrir á sama nesinu svo tímunum skiptir og tínir upp hvern fiskinn á fætur öðrum (alltaf með Black Ghost) á meðan ég geng mig upp að hnjám hringinn í kringum vatnið, skipti reglulega um flugu og inndrátt en er ekki hálfdrættingur á við hana. Já, munið eftir ‚einu reglunni‘.
Konan mín segir einfaldlega að fiskurinn komi fyrr eða síðar. Á meðan geti hún bara æft köstin og spáð í náttúruna. Þolinmæðin er líka dyggð í vatnaveiði, sé staðurinn réttur, veðrið ákjósanlegt og rétta flugan á, getur tímasetningin einfaldlega verið röng. Þá er tvennt í boði, breyttu til eða bíddu róleg(ur) þar til næsti urriði tekur við óðalinu eða næsti bleikjuflokkur fer framhjá.
1 Athugasemd
Lokað er á athugasemdir.