Jafnvel þótt skrifaðar hafa verið margar góðar bækur um fluguveiðar, þá eru það alltaf þær fyrstu sem skipa sérstöðu í safninu. Það er þekkt að fyrstu heimildir á riti um fluguveiðar eru alveg frá því um árið 200 e.Kr. en elstu heimildir um fluguveiðar sem tómstundaiðju / sport er
að finna í ‘Book of St.Albans’ frá árinu 1496. Í þessari bók er að finna merkilega ritgerð abbadísarinnar Juliana Berners frá Sopwell í Hertfordskíri á Englandi þar sem hún lýsir veiðum með öngli. Á frummálinu heitir ritgerðin ‘A Treatyse of Fysshynge Wyth an Angle’. Þeir sem treysta sér til að lesa frumtextan geta nálgast hann hérna, ég læt mér nægja að birta hér mynd úr frumútgáfunni (til hægri). Þó ritgerðasafnið hafi ekki verið gefið út fyrr en árið 1496, þá benda heimildir til þess að ritgerðin hafi verið fullgerð árið 1425. Segið svo að fluguveiðar séu einhver ‘bóla’.
Fyrir grúskara er nokkur ládeyða í heimildum næstu 150 árin eða svo. Þá ritaði Izaak Walton og gaf út bókina ‘The Complete Angler’ árið 1653. Rúmum 20 árum síðar bætti Charles Cotton einum kafla við bókina sem sérstaklega var tileinkaður fluguveiðum og þannig varð þessi bók helsta bíblía veiðimanna næstu 200 árin. Enn þann dag í dag má lesa sér nokkuð til um lifnaðarhætti fiska og fæðuvenjur í þessu merkilega riti sem má nálgast hér.
Fyrir þá sem áhuga hafa á frekara efni má benda á fyrirtaks vef Internet Archive þar sem nálgast má óendanlegan fjölda bóka og annars efnis á rafrænu formi um ýmis málefni, eldri sem yngri. Allar bækur sem hlaða má niður eru runnar út á höfundarrétti og því er hér um löglegt niðurhal að ræða.