
Haukadalsvatn
Rétt utan Búðardals, í Haukadal er Haukadalsvatn. Í vatnið rennur Haukadalsá og úr því sama á til sjávar. Vatnið er 3,2 ferkílómetrar að stærð, mesta dýpi rétt um 40 metrar í miðju vatninu.
Í vatninu er sjóbleikja og stöku lax sem staldrar það eitthvað við á leið sinni úr og í Haukadalsá.
Eins og um mörg önnur bleikjuvötn á vesturlandi hefur nokkuð dregið úr veiði hin síðari ár, en kunnugir kippa sér lítið upp við þessa niðursveiflu, afli hafi oft áður sveiflast í vatninu og nú liggur leiðin aðeins upp á við.
Sjálfur hef ég veitt í þessu vatni og það verður að segjast að náttúrufegurð þarna er gríðarleg þegar vel viðrar. Raunar hef ég einnig staldrað stutt við á þessum slóðum þegar norð-austanátt sló sér hressilega niður við vatnið, svo varla var stætt fyrir roki.
Tilvalið vatn fyrir fjölskyldufólk því tjalda má við vatnið vestanvert í samráði við landeigendur á Vatni. Vatnið er á Veiðikortinu og hefur verið það um árabil.