
Hafravatn
Hafravatn í landi Mosfellsbæjar er lítið þekkt sem veiðivatn en þar má engu að síður gera ágæta veiði. Einna þekktast er vatnið á vetrum og nokkuð stundað af ísdorgurum og greinilegt af myndum að fiskurinn er stór og feitur sem fæst upp úr vatninu.
Til langs tíma hefur það orð farið af vatninu að fiskur þar sé sýktur og almennt illa haldinn. Rannsóknir síðustu ára hafa þó ekki sýnt að um umtalsverða sýkingu sé að ræða í vatninu og fiskistofnar hafa verið að sækja í sig veðrið. Að vísu er bleikjan í vatninu ekki stór, almennt þetta um 20 sm. að lengd og þá er verið að tala um 5 ára bleikju. Urriðinn er nokkuð vænni og hef ég séð myndir af bolta fiski sem dregin hefur verið upp úr dýpstu álum vatnsins. Sömu rannsóknir sýna að sýking í fiski hefur látið verulega undan síga og er lítið meiri en gengur og gerist í svipuðum vötnum.
Sjálfur hef ég skroppið nokkrum sinnum í vatnið og þá helst til þess að æfa köst eða prófa ákveðnar flugur, nálægð vatnsins við höfuðborgina og góð aðkoma hefur þar ráðið mestu.
Í vatnið rennur mest úr Seljadalsá og útfallið er til Úlfarsár. Dýpi vatnsins er mest um 28 metrar og það er rúmur ferkílómetri að flatarmáli. Vatnið er notað sem miðlun fyrir Úlfarsá, en góður samgangur er við ána úr vatninu og væntanlega hrygnir urriðinn bæði í Úlfarsá og Seljadalsá.
Veiði er hvorki heimil í eða við ós Úlfarsár né Seljadalsár, en leigutakar Úlfarsárs bjóða almenningi að veiða í Hafravatni án endurgjalds.