
Baulárvallavatn
Í rúmlega 193 metra hæð, rétt vestan Vatnaleiðar á Snæfellsnesi eru tvö vötn sem löngum hafa laðað veiðimenn til sín. Það vatnið sem er nær þjóðveginum heitir Baulárvallavatn.
Vatnið er rúmlega 1,5 ferkílómetri að stærð, stækkaði nokkuð þegar vatnsborð þess hækkaði með tilkomu stíflu í Straumfjarðará vegna Múlavirkjunar. Sú hækkun varð til þess að útfall vatnsins, Straumfjarðará stækkaði mjög verulega og er nú eins og systurvatn á milli gamla útfallsins og stíflunnar. Þessar framkvæmdir urðu til þess að urriði í vatninu átti sér ekki lengur hryggningarslóð í þessum hluta árinnar og þá alls ekki neðan stíflu því framhjá henni er ekki fiskgengt. Nýlegar rannsóknir sýna þó að viðkoma urriða í vatninu hefur lítið dalað, ef nokkuð, og virðist hann því hafa leitað í auknu mæli í smálæki sem renna til vatnsins, Rauðsteinalæk, Draugagilsár, Baulá og Moldargilsár. Raunar er staðfest að urriðaseiði fundust ekki í Draugagilsá árið 2016, hverju sem það sætir.
Vatnið er ógnardjúpt, 47 metrar árið 1963 og við það má bæta hækkun vatnsins sem síðar varð. Fiskur liggur almennt nokkuð djúpt í vatninu en leitar reglulega upp á grynningar þegar kvölda tekur og snemma morguns. Vatnið er á Veiðikortinu og er handhöfum þess heimilt að veiða frá útfalli, meðfram norðurbakkanum og að Vatnaá að vestan. Akfært er niður að vatninu að vestan og við útfallið og má þar með lagni koma ferðavagni fyrir eða tjalda á bökkum vatnsins. Veiðimenn eru hvattir til að ganga snyrtilega um svæðið og taka rusl með sér, þarna er ekki von á mömmu til að taka til eftir sig.