Tilurð síðunnar

Upphaflega ætlaði ég þessari síðu aðeins það hlutverk að halda utan um veiðiferðirnar mínar. Fljótlega fóru þó að bætast við athugasemdir og reynslusögur frá eigin brjósti um ýmislegt sem tengist áhugamálinu, stangveiði.
Nú er svo komið að meirihluti efnisins er eitthvað sem getur talist safn fróðleiks og leiðbeininga um stangveiði og enn bætist í sarpinn. Efnið er mitt eigið utan auðvitað klippa sem ég vísa í á YouTube eða Vimeo og því vil ég biðja gesti og þá sem lýst vel á að geta uppruna þess ef þeir hafa hug á að nýta það á eigin síðum, bloggi eða á prenti. Samhliða er víst rétt að setja þann fyrirvara að ég er ekki neinn sérfræðingur um stangveiði, flugur eða fiskifræði, aðeins áhugamaður með delluna á háu stigi.

Efnistök

Eigin mistök og tilraunir hafa orðið kveikjan að flestum pistlunum og þá ekki síst þau ráð sem ég hef viðað að mér frá öðrum, hvort heldur úr riti, ræðu eða kennsluefni.

Það er alltaf ábyrgðarhluti að setja leiðbeiningar og ábendingar á netið um jafn víðfemt málefni og stangveiði er. Efnið verður að vera sem næst villulaust og ekki staðlausir stafir. Lesendur bloggsins eru því hvattir til að senda mér skilaboð hér að neðan um það sem betur má fara og óskir um efni sem þeir vilja gjarnan sjá á blogginu.

Persónuvernd

Síðan notar ekki vafrakökur og engum persónuupplýsingum er safnað um þá sem heimsækja hana og vafra á vefnum.

Í þeim tilfellum sem gestir skrá sig fyrir tilkynningum um nýtt efni eru póstföng vistuð án nokkurra annarra rekjanlegra upplýsinga og þau einungis notuð til að miðla upplýsingum um nýtt efni.

Upplýsingar sem gestir skrá í athugasemdir eru valkvæmar og einungis notaðar til að svara fyrirspurnum eða athugasemdum. Í flestum tilfellum er athugasemdum svarað á síðunni sjálfri og því aldrei haft samband við viðkomandi með öðrum leiðum, nema þess sé sérstaklega óskað.

Engar ofangreindra upplýsinga eru framseldar þriðja aðila.

Annað efni

Annað afsprengi höfundar kom út hjá Forlaginu árið 2015 og nefnist Vatnaveiði -árið um kring. Bókina má kaupa í öllum betri bóka- og veiðivöruverslunum. Ítarlegri umfjöllun má finna hérna.

Takk fyrir innlitið,
Kristján Friðriksson


Skilaboð