
American Express
Ætterni þessarar flugu er nokkuð augljóst og ættmóður hennar er að finna hérna á síðunni. Þó höfundur flugunnar eða þessa afbrigðis hafi ekki nefnt þær saman á nafn, þá er nokkuð augljós tenging.
Höfundur flugunnar, Alun Rees er enginn nýgræðingur í stangveiði og hefur um árabil veitt sjóbirting við strendur Suður Wales og eyðir nokkrum mánuðum á ári í að ferðast á milli veiðifélaga og klúbba, kenna flugukast og hnýtingar og fræða meðlimi og félagsmenn um sjóbirting og sjóbirtingsveiði við strendur Wales og Englands.
Hvort sem það er vegna dugnaðar Alun við að kynna fluguna eða því einfaldlega að hún stendur undir því orðspori sem af henni fer, þá hefur þessi fluga verið einhver vinsælasta sjóbirtingsfluga á Bretlandseyjum hin síðari ár. Hentar frábærlega í litlu og hægu vatni á flotlínu, á hægsökkvandi línu í meira og jafnvel lituðu vatni.
Til hátíðarbrigða má bæta kinnum á fluguna, auðvitað úr frumskógarhana, sem gerir hana enn veiðilegri.
Höfundur: Alun Rees
Öngull: legglangur straumflugukrókur #6 – #10
Þráður:8/0 svartur
Vöf: flatt silfur tinsel
Búkur: flatt flos eða sambærilegt efni
Vængur: svartur (grár) íkorni, fimm páfugls sverðfanir
Skegg: rauðar hanafjaðir
Haus: svartur lakkaður
Að þessu sinni er ekkert hnýtingarmynd að finna fyrir þessa flugu, enda tæplega þörf, hún er einföld og auðhnýtt fyrir alla þá sem örlitla reynslu hafa af hnýtingum.