
Alexandra
Það hefur lengi staðið til að setja þessa flugu á síðuna, en það hefur strandað á því að finna upprunalegu uppskriftina og því hefur þetta dregist úr hófi. Margt og mikið hefur verið skrifað um þessa flugu í gegnum tíðina, sumt orðum aukið, annað beinlínis rangt með farið og ýmislegt hefur orðið tilefni orðahnippinga manna í millum.
Höfundur flugunnar er að öllum líkindum Major William Greer Turle frá Newton Stacey, Stockbridge. En, allt frá því um 1880 hafa í það minnsta fjórir gert tilkall til flugunnar. Þeir sem vilja kynna sér þá sögu, geta lesið sér til um hana á vef The Fishing Museum með því að smella hérna. Ég kýs að halda mig við oftast nefndan höfund flugunnar, kannski vegna sögunnar sem tengd er honum og tilurð flugunnar. Þannig er að upprunalega skýrði Turle fluguna Lady of the Lake þegar hún kom fram á sjónarsviðið í byrjun sjöunda áratugs 19 aldar (1860-1863). Það var svo þegar Alexandra, dóttir Kristjáns IX Danakonungs, giftist Albert Edward prins af Wales árið 1863 að Turle endurnefndi þessa flugu og tileinkaði hana Alexöndru prinsessu af Wales.
Alla tíð hefur þessi fluga verið með vinsælli votflugum og skyldi engan undra því hún hefur verið og er einstaklega fengsæl. Raunar svo fengsæl að í byrjun 20 aldar var hún víða bönnuð í ám og vötnum Bretlandseyja.
Eins og um margar klassískar votflugur, þá hefur hún tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina og ýmsar útfærslur hennar komið fram. Sú mynd sem hér er dregin upp og birt er, er sem næst þeirri uppskrift sem flestir, alls ekki allir, telja vera upprunalegu uppskriftina.
Eftir því sem ég kemst næst þá inniheldur þessi meinta upprunalega uppskrift flugunnar eins og Ray Bergman setti hana fram í bókinni Trout sem kom út árið 1938, nokkur atriði sem eru frábrugðin viðtekinni útgáfu flugunnar eins og við sjáum hana oftast í dag. Ray segir að í væng hennar séu notaðar rauðar fanir úr íbis (e: ibis) sem er fugl af stórnefaætt. Síðari uppskriftir nefna hvort heldur rauða svans-, andar- eða gæsafjöður í hennar stað.
Fleira vekur athygli í uppskrift Ray, þar á meðal að hann tekur fram að aftan við búk sé hnýtt s.k. tag úr rauðu flosi, en þetta tag hefur horfi að mestu úr síðari útgáfum og það sama má segja um skegg flugunnar sem hann sagði að ætti að vera úr Deep Wine, Dark Claret eða Black. Rauðu litirnir (Wine og Claret) hafa að mestu horfið snjónum og flestir hafa skeggið úr svartri hanafjöður í dag. Að lokum nefnir Ray að vöf á búk flugunnar séu úr kringlóttu tinsel (e: round silver tinsel) sem með tíð og tíma hefur færst yfir í ávalt tinsel eða jafnvel silfurvír. Að lokum er það sjálft skottið sem Ray segir vera valkvætt hvort það sé úr peacock eða íbis. Það skyldi þó aldrei vera að á þessum 60 árum sem liðu frá því flugan kom fram og þar til Ray skráði uppskriftina að það væri farið að skolast til hvernig flugan var upprunalega hönnuð?
Höfundur: Major William Greer Turle
Öngull: votflugu 8 – 14
Þráður:8/0 svartur
Skott: páfugls sverðfjöður eða rauðar íbis / gæsa / anda / svans fanir
Tag: vínrautt flos
Vöf: kringlótt / ávalt silfur tinsel
Búkur: flatt silfur tinsel
Vængur: páfulgs sverðfjöður og rauðar íbis / gæsa / anda / svans fanir
Skegg: vínrauðar hanafjaðir (svartar)
Haus: svartur lakkaður
Bleikja | Sjóbleikja | Urriði | Sjóbirtingur |
---|---|---|---|
10 – 14 | 8 – 14 | 8 – 14 | 8 – 14 |
Eitt er það sem hefur alltaf stungið mig aðeins í augu þegar ég hef verið að leita upplýsinga um þessa frábæru flugu og það er val hnýtara á krókum. Nú er ég ekki hreintrúarmaður á fylgni við uppskriftir, en Alexandra er votfluga og mér finnst að það ætti að hnýta hana sem slíka á hefðbundin votflugukrók. Oft sést Alexandra hnýtt á legglanga straumflugukróka án þess að efnistökum eða hlutföllum sé breytt og þá verður hún hreint ekki eins falleg, bústin og þétt eins og efni standa til. Það þarf aðeins meira til heldur en krókinn til að breyta votflugu í straumflugu.
Ég ætla að láta þessa dynti mína ráð því hvaða hnýtingarmyndband ég birti hér og það verður Ian Anderson hjá Dressed Irons sem verður fyrir valinu. Ekki vegna þess að hann fylgi upprunalegu uppskriftinni, heldur vegna þess að hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera og fer vel með þessa frábæru flugu.