
Febrúarflugur 2026
Á síðasta ári var gerð tilraun til ákveðins afturhvarfs í tilhögun Febrúarflugna og eftirláta þátttakendum og stuðningsaðilum að efna til áhugaverðra og skemmtilegra viðburða í febrúar. Undirtektirnar voru slíkar að sjaldan, ef í nokkurn tíma, hefur annað eins verið á boðstólum í febrúar sem áhugafólki um flugur og fluguhnýtingar stóð til boða og því hefur verið ákveðið að hafa sama háttinn á að þessu sinni. FOS og Febrúarflugur munu því einbeita sér að utanumhaldi viðburðarins hér á síðunni og hópinum á Facebook, en láta öðrum eftir að standa fyrir og bjóða upp á áhugaverða viðburði í febrúar.
Febrúarflugur hafa alla tíð fylgt sama sniði og FOS, eru ókeypis, óhagnaðardrifnar, óháðar öllu og öllum og fyrst og fremst drifnar áfram af því markmiði að hvetja til fluguhnýtinga og gefa hnýturum tækifæri til að sækja sér leiðsögn reyndari hnýtara eða álits þeirra á verkum sínum með einföldum og auðveldum hætti.
Ef þú vilt leggja þitt að mörkum, þá einfaldlega gerist þú meðlimur hópsins á Facebook (sjá hér) og póstar einhverju af því sem þú hnýtir í febrúar, flóknara er það nú ekki. Ef þú vilt styðja við Febrúarflugur, þá getur þú nálgast allar upplýsingar um tilhögun þess með því að smella á hnappinn Stuðningur hér að ofan.
Febrúarflugur á Facebook
Heimavöllur Febrúarflugna er á Facebook (sjá hér) þar sem meðlimir hópsins setja inn myndir af handbragði sínu þennan eina mánuð, ár hvert, sem átakið stendur.
Febrúarflugur á INSTRAGRAM
Þeir hnýtarar sem ekki eru á Facebook geta tekið þátt í Febrúarflugum með því að merkja myndir á Instagram með myllumerkinu #februarflugur og myndir þeirra verða færðar inn á FOS.IS rétt eins og aðrar myndir sem birtast í átakinu.
Saga Febrúarflugna
Árið 2014 efndi FOS.IS til viðburðar á Facebook þar sem lesendur vefsins voru hvattir til að birta myndir af þeim flugum sem þeir voru að hnýta í febrúar. Undirtektir lesenda voru slíkar að árið á eftir var viðburðurinn opinn öllum og óx hann verulega að umfangi og ljóst varð að ótímabærar frásagnir af dalandi áhuga á fluguhnýtingum voru stórlega ýktar. Því miður eru myndir af fyrstu flugum Febrúarflugna frá árinu 2014 ekki tiltækar.
Átakið hefur alla tíð notið mikils velvilja einstaklinga, verslana, veiðileyfasala og veiðifélaga. Það sannaði sig árið 2025 þegar ákveðið var að hætta að veita viðurkenningar, en beina þeim tilmælum til vildarvina að láta hnýtarana njóta velvildarinnar með eins beinum og milliliðalausum hætti sem frekast var unnt. Rótgrónir vildarvinir Febrúarflugna veittu afslátt af hnýtingarvörur í febrúar og ýmsir aðilar efndu til viðburða, fræðslu og skemmtan, svo úr varð skemmtilegasti og viðburðaríkasti febrúar frá því Febrúarflugur hófu göngu sína. Þessi stuðningur er ómetanlegur og verður seint nægjanlega þakkaður, þeir sýna sig glögglega sem umhugað er um að efla fluguhnýtingar á Íslandi.
Að loknum Febrúarflugum 2025 voru samtals 9.922 flugur komnar fram á þeim 12 árum sem átakið hefur verið haldið og þær má flestar sjá í myndasöfnunum hér á síðunni.
















