FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Að verka væng – lokahnykkur

    27. desember 2010
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Síðasta hálfa mánuðinn hef ég rakið í nokkrum færslum ganginn í því að verka væng af rjúpu. Í síðustu færslu (á fimmta degi) var svo komið að ég hreinsaði vængina, skipti út grófu salti fyrir fínt og einsetti mér að leyfa þeim að þorna eins vel og mér var unnt. Kannski var ég bara heppinn eða íslenska rjúpan er svona þrifaleg, en ég varð á þessum hálfa mánuði ekki var við neina óværu í fiðrinu en til vonar og vara hef ég nú sett vængina í frystinn, ef ske kynni. Eftir einhverja daga í frystinum kem ég síðan til með að taka einn úr pokanum og hafa hjá mér við hnýtingarnar. Vel að merkja, ég rakst á ágætt ráð til að fyrirbyggja rakamyndun í þurrkuðum vængjum. Laumið eins og einum poka af rakakúlunum sem oft fylgja með raftækjum í pokann með fjöðrunum. Kannski einhver lumi á slíku núna eftir pakkaflóðið?

    Niðurstaða: ég þori alveg að mæla með þessu fyrir þá sem tök hafa á. Það sem kom mér mest á óvart var hvað þetta tók stuttan tíma og hve einfalt mál þetta er. Næst væri ég alveg vís með að prófa eitthvað aðeins flóknara, t.d. að þurrka hnakka sem kallar á fláningu og aðeins meiri verkun á skinninu sjálfu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að verka væng – dagur fimm

    17. desember 2010
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu

    Á fimmta degi fannst mér tími til kominn að skoða aðeins betur undir saltið á vængjunum. Og viti menn, allir vöðvar voru svo þurrir að þau bein sem eftir voru stóðu vel út úr og auðvelt að fjarlægja þau. Eftir að þau voru farinn skóf ég afganginn af kjötinu burt og saltaði aftur í húðina með fínu salti í þetta skiptið. Þetta lofar virkilega góðu. Ætli ég láti þetta ekki vera svona í eina 4-5 daga í viðbót til að vera alveg öruggur um að fullri þurrkun sé náð.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að verka væng – dagur þrjú

    14. desember 2010
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Bara stutt í dag; Kíkti á englavængina mína og nú lítur þetta mun betur út, enginn raki og því minni hætta á skemmdum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að verka væng – dagur tvö

    13. desember 2010
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Fyrst af öllu; mér urðu á mistök í gær þegar ég stakk vængjunum í rennilásapoka í stað þess að nota bréfpoka eða lítinn pappakassa. Þegar ég vitjaði vængjanna í morgun tók ég eftir því að töluverður raki hafði safnast innan í pokanum sem betur hefði sloppið út. Auðvitað fór ég á netið og fann þá einmitt svona tilfelli sem annar grúskari hafði lent í, hann skipti all snarlega um og setti vængina í bréfpoka þannig að betur loftaði um þá. Annars hefur þetta bara farið vel af stað, kjötið hefur nú þegar skroppið verulega saman. Spennan magnast…

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að verka væng – dagur eitt

    12. desember 2010
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Á netinu er hægt að nálgast upplýsingar um ýmsar leiðir sem menn hafa notað við að verka fuglsham eða væng til fluguhnýtinga. Næstu dagana, og vikurnar, ætla ég að lýsa ferli sem er í gangi hjá mér við að verka vængi af rjúpum sem góður félagi minn útvegaði mér. Ferlið er ekki mitt, aðeins lýsingin á því eins og það gengur fyrir sig hjá mér. Kosturinn við að verka væng frekar en ham í heilu lagi er að það er hlutfallslega mjög lítið kjöt sem þarf að þurrka í einum væng m.v. þann fjölda fjaðra sem maður ber úr bítum.

    Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu

    Fyrst af öllu tók ég vængina og dáðist af þeim ótal mörgu flottu fjöðrum sem einn vængur af rjúpu gefur. Litlar, vel lagaðar á innanverðum vængnum sem eru tilvaldar t.d. í kynnar á Black Ghost eða vöf á ýmsar flugur.  Stórar og þéttar á utanverðum vængnum og allt þar á milli. Auðvitað passaði ég mig á því að gæta fyllsta hreinlætis því eins og við vitum þá getur ýmiss óværa fylgt fuglum. Vopnaður latexhönskum og beittum dúkahníf skar ég vel í vöðvann sem er að öllu jöfnu næst fuglinum og fjarlægði allt kjöt sem mér var unnt án þess þó að skemma fjarðrirnar eða húðina á vængnum.

    Þar næst tók ég töluvert af grófu salti og nuddaði því vel í sárið. Ástæðan fyrir því að ég vil frekar nota salt heldur en t.d. Borax er einfaldlega sú að ég rakst á grein á netinu þar sem sagði að mönnum væri hættar við sárum fingrum við hnýtingar af fjöðrum sem kæmu af borax meðhöndluðum fugli. Saltþurrkun tekur þó lengri tíma.

    Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu

    Að endingu tók ég vængina og stakk þeim með sárið niður í rennilásapoka (hér urðu mér á mistök, betra er að nota bréfpoka eða lítinn pappakassa, annars loftar ekki nógu vel um vænginn) og stráði vel af salti með. Sumir vilja meina að fyrst eigi að frysta vængina til að losna við mögulega óværu, en ég valdi þá leið að þurrka kjötið fyrst og frysta síðar, þ.e. þegar ég hefði náð sem mestu af kjötinu úr vængjunum. Mikilvægt er að loka pokanum vel þannig að óværan sleppi ekki út því ferlið við þurrkunina getur tekið nokkurn tíma. Hver sá tími er skýrist á næstu dögum, vonandi.

    Umfram fjöðrum sem félagi minn lét mig fá stakk ég í annan poka og beint í frystinn þar sem hann fær að dúsa í 1-2 vikur, það á víst að duga fyrir stakar fjaðrir.

    Ég leyfi ykkur svo að fylgjast með framvindunni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vikuskammtur af ráðum

    20. nóvember 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það eru til ráð og leiðbeiningar fyrir öllu. Hér á eftir fara 7 örugg ráð til að brjóta veiðistöngina sína með einum eða öðrum hætti.

     

    1. Skelltu bílhurðinni á hana

    Það eru engin ný sannindi að bílar og veiðistangir eiga ekkert rosalega vel saman. Ef þú vilt vera nokkuð viss um að brjóta stöngina þína, leggðu hana frá þér í opna gátt á bíl, helst í roki eða sterkri gjólu. Ef þú ert ekki alveg eins öruggur um að vilja brjóta hana, lokaðu fram hurðunum og notaðu kverkina á milli spegils og hurðar í staðinn. Mundu bara hvar stöngin er þegar þú svo opnar hurðina.

    2. Leggðu stöngina frá þér á jörðina

    Stangir sem liggja flatar á jörð eru upplagðar til að stíga á og brjóta. Best er að hafa eitthvað hnökrótt undir, s.s. steina, möl eða stórgrýti.

    3. Láttu stangarendann vísa fram á göngu

    Ótrúlega einfalt ráð til að brjóta stangarendann. Notaðu tækifærið þegar þú ert að færa þig á milli veiðistaða og gerðu þitt ýtrasta til að halda stönginni í lágréttri stöðu, með stangarendann fram. Dreifðu svo athyglinni út um víðan völl, þá getur þú verið nokkuð öruggur um að þú hrasir og stingir endanum niður, krass.

    4. Notaðu stöngina til að losa festur

    Kastaðu naumt, helst í mikinn gróðurfláka eða gamla girðingu sem liggur hálf í kafi. Þegar þú ert svo búinn að festa vel og tryggilega, notaðu stöngina til að reyna að losa. Fyrst létt, síðar ákveðið og að lokum með miklu offorsi. Þú getur verið nokkuð viss um að eitthvað gefi eftir og ef þú ert heppinn þá er það stöngin, ekki hnúturinn. Ekki láta þér til hugar koma að taka í línuna/girnið til að reyna að losa, þá missir þú af upplögðu tækifæri til stangarbrots.

    5. Ekki setja stöngina nógu vel saman

    Ef þú setur stöngina þína saman með hálfum huga og aðeins að hálfu leiti þá átt þú ágætis möguleika á að brjóta hana með góðu kasti. Láttu helst skrölta aðeins í samsetningunni, þá hefst þetta miklu fyrr. Gott ráð er að að hunsa samsetningarnar algjörlega allan daginn, láttu eins og þær séu ekki til.

    6. Notaðu MJÖG þungar flugur

    Notaðu mjög þungar flugur fyrir léttu stöngina þína og kastaðu eins og þú byrjaðir að kasta. Leyfðu hvorki fram- né afturkasti að klárast, kastaðu með þröngum boga þannig að þú getir verið viss um að flugan sláist í stöngina og merji hana á viðkvæmum stað.

    7. Ekki ganga frá henni, heldur á henni

    Ekki vanda til geymslu að hausti. Ágætur staður er með garðverkfærunum og snjóskóflunni í skúrnum og blessaður/blessuð ekki vera að hafa fyrir því að taka hana sundur. Röð tilviljana klárar svo málið fyrir þig og stöngina.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 143 144 145 146 147 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar