Í grúski FOS um daginn kom heimsfræg fluga Kelly Galloup Barely Legal upp í nokkrum greinum sem gluggað var í. Kelly þessi er meðal frægustu hnýtara og veiðimanna vestan hafs, en hér heima er hann einna þekktastur fyrir fluguna sína Sex Dungeon sem einmitt hefur sést í Febrúarflugum. Galloup’s Barely Legal hefur nú verið bætt inn í safnið á FOS og hana má skoða með því að smella á myndina hér að neðan.
Annað er helst í fréttum að Febrúarflugur hafa farið hressilega af stað þetta árið og í ýmsu hefur verið að snúast hjá FOS síðustu daga. Meðal reglulegra verka er að afrita og kippa saman þær flugur sem settar hafa verið inn á Facebook og Instagram* og safna þeim saman í myndasafni hér á síðunni. Nú síðast í morgun var lokið við að uppfæra safnið og þar má nú sjá þær 167 flugur sem hnýtarar hafa þegar lagt fram þetta árið. Ef þú vilt sjá allar flugurnar á einum stað, þá er hægt að kíkja á þær með því að smella hérna.
*Vegna breytinga á Instagram eru smávægileg vandræði að nálgast myndir ársins sem settar hafa verið inn með #februarflugur og #febrúarflugur í augnablikinu, en vonandi lagast það sem fyrst þannig að við náum öllum myndunum yfir í myndasafnið á FOS.
Þar sem enginni Flugunafnanefnd hefur verið komið á fót, þá geta hnýtarar leikið sér með heiti nýrra flugna eins og þeim sýnist. FOS lék forvitni á að vita hvort hnýtarar tékkuðu á því hvort þegar væri til fluga með ákveðnu nafni og hvernig þeir brigðust þá við. Spurningin var einföld: Ef þú gefur flugu nafn, athugar þú hvort fluga sé þegar til með sama nafni?
Ríflega helmingur hnýtara (43) athugar hvort fyrirhugað heiti flugu sé þegar ‘frátekið’ (45.7 + 7.4%) áður en þeir opinbera heiti hennar. Af þeim sögðust 6 halda sig við fyrirhugað heiti en 37 sögðust finna eitthvað nýtt heiti á hana. Eins og við flestar aðrar spurningar í könnuninni bárust ýmis afbrigði þessara svara eða smellnum athugasemdum. Þeim smellnu verða gerð skil síðar.
Um helmingur svarenda (41) í könnun FOS meðal hnýtara sögðust bíða með nafngift flugu þangað til hún hefði gefið fisk, 22 sögðu nafnið ekki skipta neinu máli og 6 sögðust láta öðrum það eftir.
Aðeins 5 sögðust nefna fluguna strax en svo bárust þó nokkur önnur áhugaverð svör:
Stundum, ef ég er súper ánægður með hana.
Ef ég ákvað að hanna nýja flugu er ég yfirleitt búinn að ákveða nafnið fyrirfram.
Flugan getur fengið nafn á öllum stigum,allt frá hugmynd, við hnýtingu, við veiðar og vegna alls konar bara. Flestar fá samt ekkert nafn eða bara smá lýsingu.
Í aðdraganda Febrúarflugna voru hnýtarar beðnir um að taka þátt í smá könnun um fluguhnýtingar og ýmsu þeim tengt. Alls svöruðu 82 hnýtarar könnuninni og margir þeirra nýttu tækifærið til að koma á framfæri eigin hugleiðingum og skemmtilegum ábendingum eða áliti.
Fyrstu spurningunni sem lögð var fram svöruðu 57 á þann veg að þeir væru einfaldlega að hnýta þegar þeir settust niður við þvinguna og settu í flugu. Fjórðungur, eða 20 svöruðu því til að þeir væru bara að dunda sér, en aðeins fjórir svöruðu því til að þeir væru að hanna nýja flugu. Ef eitthvað er að marka þessar niðurstöður, þá er ljóst að meirihluti hnýtara er ekkert að flækja málið; þeir hnýta eða dunda sér við þvinguna.
Fyrir þá sem geta kinkað kolli við yfirskrift þessarar færslu, en eru ekki enn búnir að kíkja á Febrúarflugur, þá er bara um að gera að smella hér og leyfa okkur að sjá hvað þið eruð að hnýta eða dunda ykkur við.
FOS birtir með ánægju tilkynningar um áhugaverða viðburði í febrúar sem tengjast flugum, fluguhnýtingum og opnir eru áhugafólki um efnið. Ef þú lumar á einhverju spennandi sem getur átt erindi inn á FOS og Febrúarflugur, ekki hika við að senda okkur skilaboð hérna eða tölvupóst á fos(hjá)fos.is
Það er ýmislegt sem vaknar til lífsins þegar sól tekur að hækka á lofti eins og hún hamast við þessa dagana. Það er að vísu aðeins of snemmt að segja að náttúran sé að vakna til lífsins, í það minnsta þarna utandyra, en hnýtarar eru að vakna hver af öðrum. Flugur taka að birtast á samfélagsmiðlum og bloggsíðum, ásamt því að fyrirspurnum eins og; Hver hannaði þessa, Áttu uppskriftina að … eða Hvaða efni er í … tekur að rigna inn. Sumir gauka skemmtilegum lýsingum á flugu að FOS og biðja um hjálp eins og nafnlaus gerði um daginn „Fluga sem er næstum alveg eins og Black Ghost, nema brúnn búkur og allt annað efni í væng. Veistu hvað hún heitir?“ Hnýtarar eru greinilega að vakna til lífsins, en stutt í febrúar og Febrúarflugur.
En það er ýmislegt annað sem vaknar á þessum tíma ársins, sumt í tengslum við fluguhnýtingar, annað ekki. Eitt af því sem tengist fluguhnýtingum eru spurningafrænkurnar eilífu; „Hvenær er fluga fluga eða spúnn?“ og „Hvenær er fluga fluga eða ormur?“ Ég ætla að láta báðum þessum spurningum ósvarað, það eru eflaust einhverjir sem brenna í skinninu að svara þeim þannig að ég stíg bara úr pontu og gef orðið laust. Og á meðan einhver herðir sig upp í að svara þessu, þá langar mig að nefna allt aðra spurningu sem vaknar iðulega á þessum árstíma; „Hvað þarf að breyta flugu mikið þannig að hún teljist ný og eigi að fá nýtt nafn?“ Úff, þarna er ég örugglega að skjóta púðurkerlingu inn á Þrettánda degi jóla og hreint ekki víst að einhver vilji svara þessu. Tökum einhverja þekktustu silungaflugu Íslands sem dæmi; Peacock. Ég hef það eftir mjög áreiðanlegum heimildum að upphaflega hnýtti Kolbeinn þessa flugu skv. þessari uppskrift:
Öngull: legglangur 10 – 12
Þráður: svartur
Búkur: 5 – 6 stk. páfuglsfanir, vafðar um hnýtingarþráðinn
Ég held að flestir bæti einhverju af eftirtöldu við þessa flugu í dag:
vír í vöf yfir búkinn til styrkingar, koparlitaður, gylltur eða einhver annar litur
kúlu til þyngingar
skotti úr flurocent efni eða ull í einhverjum lit
hringvafin hænu- eða hanafjöður við hausinn / kúluna, jafnvel CDC fjöður
og eflaust ýmsu fleira sem mér dettur ekki í hug að setja á Peacock
FOS leikur forvitni á að heyra álit hnýtara á nafnavenjum flugna og þá sérstaklega ef þeir bregða frá upprunalegri mynd þeirra við hnýtingar og hefur því hleypt af stokkunum smá könnun sem hnýtarar eru beðnir um að taka þátt í. Niðurstöður hennar verða síðan birtar 1. febrúar þegar Febrúarflugur fara í gang enn eitt árið.