Nú er aðeins einn dagur í að Febrúarflugur 2025 hefjist og stuðningsaðilar keppast við að finna upp á skemmtilegum viðburðum til að gera febrúar að skemmtilegasta mánuði ársins fyrir hnýtara og áhugafólk um flugur. Meira, miklu meira um það þegar Febrúarflugur hefjast, við þraukum þennan eina dag í sameiningu …
Nú eru aðeins 10 dagar í að Febrúarflugur hefji göngu sína enn á ný. Að þessu sinni hverfa Febrúarflugur áratug aftur í tímann með þemanu Flugurnar í fyrsta sætið. Flugurnar verða í fyrsta sæti á Facebook og hér á FOS og það verður undir vildarvinum Febrúarflugna komið að gera vel við hnýtarana.
En hvað þýðir þetta? Jú, í stað þess að veita heppnum þátttakendum viðurkenningar í lok febrúar eins og gert hefur verið undanfarin ár, þá hef ég nú beint þeim tilmælum til þeirra sem vilja styðja Febrúarflugur að láta allt áhugafólk um fluguhnýtingar njóta stuðningsins í formi afsláttar eða sérkjara í febrúar, standa fyrir uppákomum hvers konar eða fræðslu og leggja þannig sitt að mörkum að gera febrúar að skemmtilegasta mánuði ársins fyrir hnýtara.
Ef þú ert einn af þeim sem vilt sýna Febrúarflugum og hnýturum velvild þína að þessu sinni eða veist um einhver áhugasaman, þá má nálgast allar upplýsingar um fyrirkomulag þess á heimasíðu Febrúarflugna á FOS, með því að smella á hnappinn Stuðningur.
Nú þegar hafa nokkrir vildarvinir boðað aðkomu sína og sumir eru alveg vissir hvað þeir ætla að gera fyrir hnýtara og áhugafólk um flugur. Aðrir eru enn að hugsa málið, en ég veit fyrir víst að þeir eru að hugsa stórt og það verður spennandi að sjá hverju þeir bridda uppá.
Fram að 1. febrúar mun FOS væntanlega setja inn nokkrar viðeigandi færslur á síðuna, kannski einhverjar spennandi flugur sem hnýta mætti í febrúar eða fróðleik um flugur og fluguhnýtingar.
Þá er Febrúarflugum 2024 lokið og búið að hnýta endahnútinn á það sem hvíldi á FOS og öllu starfsliði vefsins. Ekkert gott tekst með engu var sagt í einhverri sveit hérna um árið og það sama á við um Febrúarflugur, þær væru ekki neitt ef ekki væri áhuginn og atorkan í þeim sem hnýta til staðar. Það voru 178 hnýtarar, allt frá 6 ára og upp í fullþroskaða heldriborgara sem lögðu til 1.194 flugur að þessu sinni og þar með viðhélst aukning miðað við eðlilegt árferði.
1.194 flugur á einu bretti
Svo má ekki gleyma klappliðinu á hliðarlínunni. Yfir 1.700 meðlimir og fylgjendur Febrúarflugna héldu uppteknum hætti síðustu ára; hrósuðu í hástert, spáðu í leikskipulag og uppstillingu á vellinum. Til allrar lukku þurfti ekki að handtelja upp úr kössunum þegar kom að öllum þumlunum og hrósinu sem viðhöfð voru frá 1. til 29. febrúar: 1.155 ummæli og 35.427 viðbrögð náðu til yfir 40.000 einstaklinga í mánuðinum. Það er einfaldlega með því mesta sem sést hér á landi og ekki ein króna í auglýsingar. Það sannast á Febrúarflugum að það þarf ekki að auglýsa gæði og glæsileika, gott efni selur sig sjálft.
Að þessu sinni var 24 heppnum hnýturum færðir glaðningar frá 12 styrktaraðilum Febrúarflugna.
Til ykkar allra, þátttakenda, meðlima hópsins og styrktaraðila; kærar þakkir fyrir ykkar frábæra framlag. Nú eru aðeins 11 mánuðir í næstu Febrúarflugur og allt FOS gengið mun nú leggjast undir feld og hugsa með hvaða hætti megi laða fram og efla fluguhnýtingar enn frekar hér á Íslandi.
Það er helst að frétta af Febrúarflugum að framkomnar flugur eru nú orðnar 500 og meðlimum hópsins á Facebook hefur fjölgar hratt síðustu daga. Í hópinum eru nú 1.600 meðlimir, auk um 200 sem hafa kommentað á stakar færslur en ekki óskað eftir aðild að hópinum. Í því sambandi er rétt að geta þess að allar aðildarbeiðnir og komment, annarra en meðlima, eru handvirkt samþykkt til að koma í veg fyrir spam og óæskilegan áróður af ýmsu tagi sem berast nær daglega.
Vegna mikillar og ánægjulegrar fjölgunar hnýtara sem eru að birta sínar fyrstu flugur í Febrúarflugum hefur verið ákveðið að veita nokkrum þeirra sérstaka viðurkenningu. Þrír styrktaraðilar brugðust hratt og vel við og munu útvega glaðninga til þeirra heppnu í lok mánaðar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn. Þessi aðilar eru:
Líkt og undanfarin ár njóta Febrúarflugur stuðnings öflugra styrktaraðila og kunnum við þeim öllum miklar þakkir fyrir. Sami háttur verður hafður á veitingu viðurkenninga fyrir þátttöku í Febrúarflugum eins og verið hefur, dregin verða út nöfn heppinna einstaklinga sem hljóta einhverja þeirra fjölmörgu viðurkenninga sem styrktaraðilarnir hafa látið í té.
Af Febrúarflugum er það annars helst að frétta að nú þegar hafa borist á fjórða hundrað flugur í mánuðinum og á bak við þær standa 90 hnýtarar og margir þeirra að sýna frumraunir sínar í Febrúarflugum. Velkomin öll og takk fyrir að vera með.
Á innan við viku hefur meðlimum hópsins fjölgað um tæplega 70 aðila, bæði innlendum og erlendum sem áhuga hafa á flugum og fluguhnýtingum. Á sama tíma hefur áskrifendum* og gestum FOS sömuleiðis fjölgað ört síðustu daga og flestir skoða heimasíðu Febrúarflugna þar sem m.a. má finna myndasafn þeirra flugna sem komið hafa fram árið 2024 auk flugna hvers árs allt frá 2015.
* áskrift að FOS er gjaldfrjáls og án allra skuldbindina, áskrifendur fá tilkynningar um nýtt efni í tölvupósti um leið og það birtist.
Yfirgnæfandi meirihluti svarenda í könnun FOS (92% – 73 hnýtarar) geta litabreytinga á flugu ef þeir bregða út frá upphaflegri uppskrift. Aðeins fjórir töldu enga þörf á að geta breytingar, þrír sögðust ganga svo langt að breyta heiti hennar. Ekki var sérstaklega spurt um eða því svarað hvort þeir sem breyttu heiti hennar teldu sér litabreytinguna til tekna.