Nú, þegar Febrúarflugum 2025 er lokið, er mér efst í huga þakklæti til allra þeirra 148 hnýtara sem lögðu sitt að mörkum með því að setja inn 1.316 flugur í mánuðinum og gera hann enn einu sinni að topp mánuði Febrúarflugna*) Og ekki má heldur gleyma öllum þeim sem svöruðu kalli FOS að standa fyrir viðburðum og/eða gera vel við hnýtara með einum eða öðrum hætti og gera þannig febrúar að einhverjum skemmtilegasta mánuði ársins. Takk, þetta tókst frábærlega og þið eigið öll miklar þakkir og hrós skilið fyrir ykkar framlag.
*) Ég leyfi mér að undanskilja árin 2021 og 2022 þegar hnýtarar höfðu litlu öðru að sinna í einverunni heldur en fluguhnýtingum.














Vöxtur Febrúarflugna í gegnum árin hefur verið langt, langt framar vonum og ég hef sannast sagna alveg eins átt von á að fjöldi flugna hafi náð hámarki sínu á hverju ári frá 2018 þegar þær náðu því að verða 523, en áfram hafa þær vaxið og dafnað. Talnaglöggir sjá að í heildina hafa 9.922 flugur komið fram í Febrúarflugum frá upphafi, það er slatti.

Hópurinn á Facebook hefur dafnað og styrkst á liðnum árum og telur nú rúmlega 1.800 meðlimi og í febrúar var hann heimsóttur 27.031 sinni, 643 komment voru sett við myndir og viðbrögð voru 27.714
Mér telst til að áhugafólk um fluguhnýtingar hafi geta brugðið sér 12 sinnum af bæ í febrúar og heimsótt þá sem stóðu fyrir viðburðum í mánuðinum og það hefur aldrei verið annað eins framboð af skemmtun og fróðleik eins og í ár.
Svo góðar undirtektir voru við þessum viðburðum að Stangaveiðifélag Borgarness og Fluguhnýtingar á Vesturlandi ætla að nýta sér meðbyrinn og standa fyrir hnýtingakvöldum í mars sem hér segir; Borgarnesi 10. mars kl.19:00 í Grillhúsinu og Akranesi 14. mars kl.18 í Stúkuhúsinu. FOS mælir eindregið með því að kíkja á þessi hnýtingakvöld.
Að þessu sögðu, þakkar FOS kærlega fyrir undirtektirnar, stuðninginn og góðar kveður, sjáumst eigi síðar en 1. febrúar 2026.




