Það fór nú eins og mig grunaði. Fallegu lýsingarnar af háttarlagi fiskanna í Meðalfellsvatni urðu til þess að við hjóninn skruppum þangað upp eftir í dag og auðvitað slóst nýjasti fluguveiðimaður Íslands með í för. Líkt og í gær var ágætis veður, aðeins kaldara þó. Eitthvað var ég slakari heldur en í gær, missti fleiri fiska sem ég kenni auðvitað slakari tökum um, en heim kom ég þó með 7 stk. Frúin tók þrjá og missti alveg helling, helst þegar þeir voru komnir á loft og stefndu í greipar henni. Sjálf hafði hún á orði að e.t.v. væri sniðugt að taka með sér háf og venja sig á að góma þá þannig. Stóri bróðir tók 7 stk., flesta á flugu sem hann hnýtti sjálfur sem bara jók á kikkið síðan í gær. Sannkallaður ‘killer’ á ferð.
-
Meðalfellsvatn, 19.sept.
Höfundur:
-
Meðalfellsvatn, 18.sept.
Við bræðurnir gerðum okkur ferð upp að Meðalfellsvatni upp úr hádegi. Prýðilegt veður, þurrt og sólríkt með köflum. Ég furðaði mig á því þegar við komum að vatninu, hversu þétt tveir veiðimenn stóðu úti við ‘Stóru steinana’ en skýring fékkst á því eftir stutt spjall við annan þeirra þegar hann kom í land. Bleikjan var vaðandi í torfum á þessum slóðum og lítið annað að gera en láta einhverja svarta og rauða flugu renna fram úr fremstu lykkju. Að vísu var fiskurinn frekar smár, en þó ekki svo að ekki mætti éta hann. Sjálfur nýtti ég tækifærið og raðaði út nokkrum af flugunum mínum, helst litlum í stærð 12-16 og ekki of búk miklum, svona til að prófa það sem var í boxinu. Þær sem gáfur helst voru; Watson’s Fancy (hefðbundin púpa og svo grönn á grubber), Krókurinn, Bleik og blá (grubber), Heimasætan (grubber). Það var greinilegt að fiskurinn var löngu hættur að hugsa um æti, hér gilti bara að pirra hann nógu mikið og draga létt í gegnum torfurnar. Kannski engin furða að síðasti dagur í vatninu er 20.sept. fiskurinn er greinilega að draga sig saman í hryggningu. Það fór svo að ég tók ein 14 stk. með mér heim og nokkuð ánægjulega minningu af sýndalátum hænga sem voru að gera sig til fyrir hryggnunum. Það var á tíma eins og David Attenbrough væri mættur á staðinn og ég væri að horfa á einhverja Top 10 náttúrulífsmynd, þvílík voru atriðin sem sett voru á svið fyrir mann.Aukafrétt: Stóri bróðir gaf sér loksins góðan tíma með flugustöngina og fékk sína fyrstu tvo á flugu, til hamingju.
Höfundur:
-
Urriðavatn, 12.sept.
Svona rétt til þess að drepa tímann á meðan vinnufélagar mínir fóru 9 + ???? holur á golfvellinum við Ekkjufell, skellti ég mér í Urriðavatn utan við Fellabæ. Hér væri hægt að segja margar smáar sögur af litlum bleikjum. Eftir stutta upplýsingagjöf að bænum Urriðavatni tók ég til við að skanna vatnið í leit að stóru bleikjunum. Ég hefði örugglega ekki haldið úti í rúma 2 tíma hefði veðrið ekki verið eins gott og raun bar vitni. Þær stóru liggja væntanlega enn nokkuð djúpt, eftirláta þeim smáu grynningarnar því það var það eina sem ég fann. Annars var mér tjáð að best gæfi snemm sumars og síðan að hausti þegar bleikjan dregur sig upp á grynningarnar til að hryggna. Væntanlega eru þær ekki byrjaðar að hryggna ennþá…….Höfundur:
-
Breiðdalsá 11.sept.
Mér er bara alveg sama þótt þessi mynd sé við greinina (öngull í rassi) því þessi ferð okkar vinnufélaganna austur í Breiðdal var alveg frábær. Fyrst af öllu, lipurð starfsmanna Veiðiþjónustunnar Strengja, veðrið lék við okkur allan daginn og umhverfið alveg einstakt. Við félagarnir áttum þrjár stangir á silungasvæðinu á laugardag. Vorum nokkuð tímanlega á ferðinni á föstudagskvöldið þannig að við renndum niður að veiðihúsi að leita frétta af veiði. Í stuttu máli, fáar sögur af silungasvæðinu sem hafði beinlínis farið hamförum vegna vatnavaxta síðustu daga. Útlitið var ekki gott… en eftir eitt stutt símtal við Þröst í Stengjum var okkur boðið að taka efstu svæðin í Suður- og Norðudal Breiðdals í stað þess að eyða öllum laugardeginum í að skanna neðstu svæðin í mjög miklu vatni. Hefði ég verið með sardínudós meðferðis hefði ég væntanlega náð að fylla hana og hefði félagi minn átt ódeigan Toby hefði hann væntanlega náð einum mjög vænum laxi rétt fyrir ofan Hamarsflöt (það sem sagt gaf sig þríkrækja á ‘gamla góða’ spúninum hans). Þótt ég hafi minna en ekkert vit á laxveiðiám, þá þori ég svo sannanlega að mæla með Breiðdalsá þó ekki væri nema silungasvæðinu að vori eða snemm sumars. Stórkostleg náttúra, fallegt árstæði og frábær þjónusta hjá Strengjum. Svo skemmir ekki heldur að ég náði að sjúga í mig alls konar vitneskju um fluguveiði í ám af félögum mínum og öðrum í veiðihúsinu.Höfundur:
-
Hlíðarvatn, Hnappadal 5.sept.
Rjómablíða, létt vestan og suð-vestan átt og vatnið upp á sitt fegursta. Vorum mætt í vatnið kl.10 og fljótlega fóru fyrstu fiskarnir að týnast á land. Fastir liðir eins og venjulega; enn hefur lækkað í vatninu. Nú er ég hættur að þora að segja til um hversu mikið vantar í vatnið. Ef við fáum enn einn snjóléttann vetur, þá lítur næsta sumar ekki vel út. Við hjónin voru mjög einbeitt og héldum okkur við fluguna allan daginn, hún með Black Ghost (10 fiskar) en ég með ýmsar aðrar; Vinstri græn, Bleik og blá, Dentist, Blue Charm og Þingeyingur auk Black Ghost (8 fiskar) þannig að samtals tókum við 18 væna fiska fram til kl.21:00 Vatnið hefur því gefið okkur 83 fiska í sumar. Ferðafélagar okkar tóku eitthvað minna á maðk.Höfundur:
-
2000+
Takk fyrir allar heimsóknirnar, yfir 2000 innlit á rúmum mánuði hlýtur bara að teljast nokkuð gott. Af þessu tilefni fór ég aðeins yfir hvað helst væri skoðað af blogginu og þá stóðu uppskriftirnar uppúr. Til að gera þær aðgengilegri hef ég nú flokkað flugurnar eftir því hverjir láta helst glepjast af þeim og bætt við stærðum hverrar flugu eins og ég vil helst hafa þær í boxinu mínu.Vonandi safnast síðan saman fleiri uppskriftir að áhugaverðum flugum. Ykkur er velkomið að senda mér ábendingar um þær flugur sem vert væri að geta eða hafa reynst ykkur vel. Ég mun reyna að útvega lýsingar af þeim, uppskriftir og einhver gáfuleg komment.
Höfundur:

