Ef ég gæti bara haldið mig við örfá ráð sem ég hef lesið eða fengið frá kunningjum mínum varðandi hnýtingar, þá væri lífið við þvinguna trúlega miklu auðveldara. Auðvitað hefur eitthvað af þessu síast inn í gegnum árin, en enn þann dag í dag stend ég mig að því að gleyma nokkrum þeirra.
Varðandi skipulagið, þá stend ég mig reyndar mjög vel í að skipuleggja hnýtingarefnið mitt. Dett reyndar oft og iðulega niður í sjálfsvitundardund og raða efninu í skúffunum, sem er undarlegt því það er alveg sama hve oft ég raða, alltaf hefur einhver komist í dótið mitt og ruglað öllu. Hef húsálfinn grunaðan um að vera áhugamann um fjaðrir, þræði, kúlur og þess háttar. En, þegar kemur að því að setjast niður og hnýta, þá vantar oft og iðulega uppá skipulagninguna. Ég er kannski hálfnaður með einhverja flugu þegar ég uppgötva að mig vantar eitthvað í hana og þarf að leggja allt frá mér, opna skúffu eða box og þá er tempóið farið út um þúfur. Mikið vildi ég að ég gæti raðað öllu efninu skipulega á borðið áður en ég byrja að hnýta.
Þó ótrúlegt megi virðast, þá hugsa ég stundum. Bara ekki alltaf áður en ég byrja að framkvæma og það getur komið mér í koll. Eins og til dæmis þegar ég í miðju kafi þarf að fara einhverja fjallabaksleið til því að koma efninu á réttan stað á fluguna. Ég hef svo sem verið að temja mér að hnýta eina flugu og telja sjálfum mér trú um að hún sé tilraunaflugan, þurfi ekki að vera upp á punkt og prik en oftar en ekki gæti ég ekki alveg nógu vel að því að leggja bestu aðferðina á minnið. Það er nefnilega þannig að hver vill sitt lagið hafa við að hnýta og jafnvel þó maður hafi einhvern snilling fyrir framan sig (í raunheimum eða á skjánum) þá er ekkert víst að manni sé tamt að hnýta alveg eins og viðkomandi og þá er oft betra að leyfa snillingnum að taka fram úr manni og hugsa síðan hvernig manni sjálfum þætt hentugast að gera hlutina.

Ég er ekki handstór maður, bara svona í meðallagi og því eru feitir fingur ekki nein fyrirstaða fyrir því að hafa hnýtingarskærin föst í hendi, en því er nú öðru nær. Enn er ég að þverskallast við og leggja þau frá mér um leið og ég hef klippt eitthvað, þarf svo að fálma eftir þeim næst þegar ég ætla að klippa, jafnvel að taka augun af flugunni til að finna þau á bak við eitthvað dót á borðinu. Það bregst reyndar ekki að í hvert skipti sem ég þarf að sækja skærin, þá man ég eftir því hvað Eddi Klippikrumla var flinkur að klippa, enda þurfti hann aldrei að taka upp skærin. Verst er að á meðan ég hugsa þetta, legg ég skærin frá mér og endurtek því vitleysuna í sífellu.









Senda ábendingu