Flýtileiðir

Að hlusta á sjálfan sig

Mikil lifandis skelfingar upplifun var það um daginn að hlusta á sjálfan mig tuða fyrir framan tölvuna um flugu sem ég sá á samfélagsmiðlunum. Í anda er ég ennþá 28 ára, en það virðist vera sem hvorki líkami né heilabú séu á sama máli og ég. Þegar ég opnaði munninn sem jákvæður og umburðarlyndur maður á besta aldri, þá braust einhver úrillur gamall karl fram á varir mínar og sá hafði allt á hornum sér.

Fyrir nokkrum árum síðan, svona um það bil þegar ég var að byrja að fikta við fluguhnýtingar, þá fékk ég tilsögn frá mér miklu eldri manni og mikið óskaplega þótti mér vænt um það þegar hann settist á móti mér. Hann sagði mér ekki til, hann spurði mig spurninga eins og Hvers vegna gerir þú þetta svona? eða Af hverju velur þú þessa fjöður? og þegar ég hafði svarað, í þau fáu skipti sem ég hafði svar á reiðum höndum, þá sagði hann mér hvernig hann mundi gera hlutina og hvers vegna hann veldi allt aðra fjöður en þá sem ég hafði valið.

Þessi góði maður var hreintrúar, bæði á æðri máttarvöld og fluguhnýtingar, jafnvel svo að stundum var ég ekki viss hvort hann gerði nokkurn greinamun á heilagri ritningu eða fluguuppskriftum, hvað þá þekktum fluguhnýturum eða postulunum. Hann sat alltaf fastur við sinn keip ef ég brá út frá upphaflegri uppskrift og var óbilandi í því að benda mér á að svona var flugan ekki upphaflega. Það var hreint ekki þannig að hann væri mótfallinn því að bregða út frá uppskriftinni, hann var miklu frekar að leita eftir því að ég færði rök fyrir breytingunni. Oft nægði mér að segja eitthvað á þá leið að mér þætti hún veiðnari svona eða svona og hann var sáttur. Ég komst jafnvel upp með að velja allt annað efni í fluguna eða hnýta straumflugu sem votflugu, laxaflugu sem silungaflugu. Það eina sem ég varð að passa var að færa rök fyrir breytingunni og geta hennar.

Svo rammt hefur kveðið að þessum fyrstu kynnum okkar að ég hef tamið mér það síðan að taka það fram að umrædd fluga sem ég hef breytt og birt eða skrifað um, sé ekki samkvæmt uppskrift. Geta þess hverju ég hef breytt og jafnvel færa rök fyrir því, þó það sé ekki nema að mér finnist betur fara á þessu frekar en öðru. Ég breyti oft út frá uppskrift, því flugurnar verða jú fyrst og fremst að ganga í augun á veiðimanninum, annars er ekki von á að hann veiði nokkurn skapaðan hlut á hana.

Það varð mér sem sagt umhugsunarefni um daginn að ég tók upp á því að fussa og sveia þegar ég sá flugu á samfélagsmiðlunum þar sem hnýtarinn hafi notað gullkúlu í stað kopars í landsfræga flugu. Gamli úrilli karlinn braust fram á varir mínar og var hreint ekki uppbyggilegur í orðavali. Ég held að best fari á því að biðja sjálfan mig afsökunar á þessu, það sem ég hefði viljað sagt hafa er að þarna hefði hnýtarinn mátt taka það fram að honum þætti eða reynsla hans sé, að viðkomandi fluga veiði eða líti betur út með gulli heldur en kopar. En hvers vegna fór þetta svona í taugarnar á gamla karlinum? Jú, kannski vegna þess að skömmu síðar höfðu fleiri hnýtarar apað eftir þessari mynd, látið glepjast af gullinu og einn þeirra þrætti meira að segja fyrir að flugan hefði upprunalega verið með koparkúlu.

Til að kippa 28 ára gömlum sjálfum mér niður á jörðina sendi ég vinkonu minni, henni Gervi Greind mynd af mér um daginn og bað hana um að stílfæra hana í anda 60 ára gamals pirripúka. Er að spá í að ramma hana inn og hafa við tölvuna mína, en held mig samt við það álit mitt að það fari betur á því að geta breytinga sem menn gera á flugum. Mín vegna má alveg sleppa því að bæta afbrigði eða útfærsla við heiti flugunnar, það segir sig sjálft ef fráviks er getið.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *