Flýtileiðir

Speedy Gonzales

Það kemur helst fyrir í febrúar að ég heimsæki aðra hnýtara og eyði með þeim kvöldstund eða hluta úr degi. Annars húki ég oftast einn við hnýtingar heima við, gjarnan við skrifborðið mitt með einhvern snillinginn á skjánum og eyði álíka mörgum augnablikum við að stöðva myndbandið eins og ég eyði við hnýtingarnar sjálfar. Í báðum þessum tilfellum grípur stundum einhver örvæntingafullur latínó gæi um sig innra með mér og ég keyri hnýtingarnar alveg upp að hámarkshraða og enda þar af leiðandi skjálfandir úti í skurði með allt í klessu. Það má, en það er oftast óþarfi.

Það er nefnilega mikill munur á hámarkshraða og æskilegum hraða. Hið fyrra á við um hnýtara sem hafa hnýtt í áraraðir, einhverja hundruði af viðkomandi flugu og eru jafnvel atvinnumenn. Þeir hafa allt efnið tilbúið við höndina og þurfa aldrei að hugsa um hvað kemur næst. Er þetta rétt efni, hvaða krókur er þetta eða eitthvað annað.

Þegar maður ekur úti á þjóðvegi þar sem hámarkshraðinn er 80 eða 90 km þá er ekki óalgengt að það birtist svona blátt skilti með hvítum tölustöfum áður en komið er að krappri beygju (40, 50 eða 60 km æskilegur hraði) og maður hægir á sér. Í fluguhnýtingum getur þessi beygja verið óþjált efni sem flækist um puttana, vængur sem þarf að sitja rétt eða hringvaf úr einhverjum ræfli sem aldrei leggst almennilega. Kannski er ég einn um að upplifa mig stundum með nefið fullt af ryki eftir að Speedy Gonzales hefur spítt fram úr mér, en það verður bara að hafa það. Ég held nefnilega að það sé engin skömm af því að fara sér hægt þangað til maður hefur náð góðum tökum á hnýtingum. Þetta er kannski eitthvað sem byrjendur í fluguhnýtingum þyrftu að hafa í huga, æfingin skapar meistarann.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *