Flýtileiðir

Súkkulaðifrauð

Fluga er ekki bara fluga, ekki frekar en súkkulaði er bara súkkulaði. Súkkulaði er til í ýmsum styrkleikum, því hreinna sem það er því dekkra og hreinast er það næstum því svart. Viðbætt efni, eins og t.d. mjólk eða rjómi, lýsa súkkulaðið eins og við þekkjum. Ég er svolítið af gamla skólanum og tel ‚hvítt‘ kakólaust súkkulaði ekki með. En hvað kemur þetta flugum og fluguveiði við?

Jú, það er til fluga sem flestir áhugamenn um flugur þekkja og hún er kennd við súkkulaði. Þetta er einföld fluga, en þar með er líka allt sem getur talist einfalt búið, því það getur reynst þrautinn þyngri að finna hana á vefnum, því hún getur heitið óteljandi mörgum nöfnum. Sem tæmi um þau eru Chocolate Emerger, Chocolate Foam Wing, Chocolate Foam Wing Emerger, Chocolate Foam Wing Midge Emerger, Chocolate Foamback Emerger, Chocolate Thunder, Chocolate Thunder Foam Back Emerger o.fl.

Allt eru þetta nöfn sem veraldarvefurinn geymir yfir flugur sem eru ákaflega keimlíkar í útliti og að efnisvali og gera má ráð fyrir að lesendur kannist við enn fleiri nöfn á flugum sem líkjast einhverri af þeim sem sjá má á myndinni hér að neðan. Litbrigði þessara flugna eru alveg eins og súkkulaðisins, allt frá dökk, dökk brúnum lit yfir í rjómakenndan, brúnleitan blæ.

Ég veit ekkert um uppruna þeirra flugna sem eru á myndinni. Í fæstum tilfella er skráður höfundur og þeir fáu sem hafa verið tilgreindir eru yngri en elstu myndir af viðkomandi flugu eru þannig að það fellur svolítið um sig sjálft að þeir hafi fundið upp á að hnýta hana. Kannski fer bara best á því að segja að þessi fluga sé, eins og svo ótal margar aðrar, upprunninn í náttúrunni sem fjöldi veiðimanna hefur apað eftir, þar á meðal ég án þess að taka það í mál að teljast hönnuðir eða höfundar hennar.

Í anda þeirrar sérstöku hefðar okkar að íslenska heiti á ýmsu mismerkilegu, eins og til dæmis erlendum borgum; Lundúni, Kaupmannahöfn, Jórvík o.fl. þá ætla ég ætla að laumast til að kalla þá flugu sem ég hef átt í mínu boxi í nokkuð mörg ár, Súkkulaðifrauð. Fyrir þá sem vilja berja hana augum, þá má finna uppskriftina að henni eins og ég hnýti hana hérna og frænku hennar, Lakkrísfrauð hérna.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *