Flýtileiðir

Sextán sortir eða vanilluhringi?

Eins skemmtilegt og það nú er að prófa nýjar flugur, hvort sem það er í hnýtingum eða í veiði, þá eru líka gallar við það að vera sífellt að prófa eitthvað nýtt. Þó það sé vissulega minna mál að prófa einhverja nýja flugu í veiði, þá er alltaf eitthvað öðruvísi við allar flugur. Ég í það minnsta, hef ákveðinn takt í því hvernig ég veiði hverja flugur. Það var reyndar ekki fyrr en mér var bent á að það væri næstum hægt að spá fyrir um fluguna sem ég var að nota með því að lesa í hreyfingar mínar, inndrátt og viðbragð, jafnvel lengd kasta.

En hvað þá með nýjungagirni í fluguhnýtingum? Jú, það er skemmtilegt, en fyrir byrjendur er almennt mælt með því að byrja á fáum, vel völdum flugum í fyrstu. Ná góðum tökum á hverri og einni, áður en næsta er tekin fyrir og umfram allt, ekki velja einhverja rosalega flókna flugu með samsettum væng úr fimm fjöðrum eða þurrflugu með þyrlupalli og CDC kraga. Ég hef fylgst með góðum dreng í nokkur ár sem er vitringur mikill, hann veit nánast allt um flugur og fluguhnýtingar, er hreintrúarmaður á heila ritningu hverrar flugu, þ.e. upprunalegu uppskrift hennar og fylgir henni út í hörgul. En, hann hefur aldrei haft nennuna í sér að nostra við eigin hnýtingar og því eru flugurnar hans bara eins og þær eru.

Við kynntumst fyrst á hnýtingarkvöldi þar sem heiðursgestur kvöldsins var einn okkar færustu hnýtara og þar með heimsins alls, því hnýtarar á Íslandi hafa það orð á sér að vera mjög góðir á heimsvísu. Umræddur hnýtari sat við þvinguna, spjallaði og hnýtti alveg í gríð og erg. Og hvað hnýtti hann? Jú, hann raðaði þverhausum á hvern krókinn á fætur öðrum, hnýttir og límdi, tók síðan næsta krók og endurtók leikinn, allt kvöldið. Kunningja mínum þótti lítið til þessa koma, bölsótaðist yfir þessum leiðindum, hann vildi hnýta heimsfrægu fluguna sem heiðursgesturinn átti heiðurinn að, ekki horfa á 16 þverhausa raðasta upp á króka allt kvöldið. Ég benti honum á að svona færu nú margir að því að hnýta, undirbyggðu 12 – 16, jafnvel fleiri flugur, tækju þær svona í áföngum, skref fyrir skref. Alltaf sama handbragð og á endanum væru þær tilbúnar á einu bretti, allar eins, allar afskaplega vel hnýttar.

Það sama á í raun við þegar menn byrja á að hnýta. Það er ekki verra að vera með uppskrift, en lykillinn að góðri hnýtingu er að endurtaka sömu fluguna ótal sinnum þar til maður er búinn að ná tökum á henni. Þá fyrst snýr maður sér að annarri flugu, kannski sömu tegundar en með öðrum hráefnum eða allt öðruvísi flugu. Mikilvægast er að flýta sér ekkert of mikið, leyfa vöðvunum að sjúga í sig handbragðið, byggja vöðvaminnið þannig að þegar þú hnýtir fluguna næst, þá rifjast aðferðin fyrr upp og þær verða hver annarri líkar. Þetta er svolítið eins og baka góðar jólasmákökur. Það getur tekið nokkrar atrennur að baka góða vanilluhringi, en ég er nokkuð viss um að þeir njóta á endanum meiri hylli heldur en 16 sortir sem allar eru eitthvað einkennilegar á að líta eða bragða.

Sextán sortir

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *