Flýtileiðir

Hver var þessi Kelly Green?

Þessi spurning rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég fékk orðsendingu um að tiltekið hnýtingarefni væri nú aftur fáanlegt í verslunum hér heima. Kelly Green? Það eru alveg líkur á að einhver beri þetta nafn vegna þess að ættarnafnið Green á sér saxneskar og norrænar rætur og finnst í ensku og keltnesku, einna helst írsku. Eiginnafnið Kelly er líka til og það á sér svipaðar rætur því það er enska útgáfa írska karlmannsnafnsins Ceallach eða yfirfærð merking ættarnafnsins O’Ceallaigh. Og þannig að ég velti út fleiri ónauðsynlegum upplýsingum, þá stendur O’-ið í ættarnöfnum fyrir afkomandi og Mac stendur fyrir sonur.

En, auðvitað var þetta ekki svarið sem ég gaf viðkomandi, heldur að þetta væri heiti á ákveðnum lit sem væri vinsæll í augum fiska og því töluvert notaður í fluguhnýtingum. Rétt eins og ættar- og eiginnöfnin hér að ofan, þá á þessi litur ættir að rekja til Írlands og á að minna á græna haga þess, sem getur einmitt verið ástæðan fyrir því að hann er einkennislitur dags heilags Patreks og írskra búálfa (leprechauns).

Kelly green er bjartur og orkumikill litur, nánast yfirþyrmandi og er því oft paraður saman með svörtu eða skógargrænu til að milda áhrif hans. Á myndinni hér að ofan er litrófið frá hreinum Kelly green yfir í skógargrænan og á þessu rófi er flest hnýtingarefni sem merkt er Kelly Green. Eitt það vinsælasta hér á landi, Wapsi Tinsel Chenille – Kelly Green er nánast á miðju þessa rófs og notað í vinsælar Veiðivatnaflugur eins og Öldu, Helga V. Úlfssonar og Kelly Green, Olgeirs Andréssonar.

Vinsamlegast athugið að mismunandi stillingar tölvuskjáa geta haft töluverð áhrif á hvernig tilteknir litir birtast hjá hverjum og einum. Litirnir hér að ofan eru skv. RGB litastillingu sem notast við rauðan (R), grænan (G) og bláan (B) lit en það er ekki sjálfgefið að allir tölvuskjáir séu stilltir þannig.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *