Flýtileiðir

Leitin að Carey Special

Því var gaukað að mér fyrir mörgum árum síðan að vestur í Kanada væri til fluga sem héti Carey Special og hún væri gerð úr þremur tegundum fjaðra af einum og sama fuglinum, fasana (e. Ringneck Pheasant). Þar sem ég, fyrir enn fleiri árum síðan, eignaðist ham af slíkum fugli, vaknaði töluverður áhugi hjá mér á þessari flugu og því leitaði ég á náðir veraldarvefsins eins og svo oft áður. En í þetta skiptið renndi vefurinn sér léttilega framhjá staðreyndum og dældi þess í stað á mig endalausum getgátum um þessa flugu.

Fyrir það fyrsta þá fann ég óteljandi útgáfur af flugu með þessu heiti. Allar voru þær þokkalega keimlíkar, en litadýrð þeirra og efnisval var ekki í samræmi við það sem mér hafði verið bent á og þeir fáu sem voguðu sér að geta uppruna hennar voru nánast ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut, þannig að ég leitaði í bókaskápinn minn.

Það kennir ýmissa grasa í bókaskápnum á þessu heimili og Carey Special var þar á meðal í nokkrum bókum. Í bókinni Trout Flies frá 1999 telur Dave Huges upp að í búk flugunnar sé notað ólívugrænt chenille eða fasani, auk þess sem kraginn sé gerður úr bakfjöður fasana. Chenille kom mér ekkert á óvart eftir að hafa rekist á það á vefnum, en mig vantaði örlítið betri lýsingu á flugunni og helst eitthvað um uppruna hennar, þannig að ég hélt áfram að blaða í bókum.

Jack Dennis segir í bók sinni Tying Flies: With Jack Dennis and Friends frá 1993 að þráðurinn eigi að vera svartur, skottið úr svörtum eða brúnum bjarnarhárum, búkurinn úr því sama og hringvafið sé gert úr söðulfjöður fasana. Þetta var greinilega ekki uppskriftin sem mig vantaði.

John Veniard segir í bók sinni A Future Guide to Fly Dressins frá 1964 að skottið sé gert úr söðulfjöður fasana, búkurinn úr brúnni ull að einum þriðja aftast, vafinn hringvafi úr söðulfjöður fasana þaðan og fram að haus. Hausinn svartur og lakkaður. Nei, ekki heldur sú uppskrift sem mig vantaði og nú var ég alveg strand. Eina vísbendingin sem ég átti eftir að rekja var í bók frá árinu 1939 og hana átti ég ekki í mínum fórum, þannig að ég setti þetta á ís á sínum tíma.

Nú bar svo við að veraldarvinur minn eignaðist umrædda bók í sumar og sendi mér myndir af nokkrum blaðsíðum hennar. Bókin heitir The Western Angler og höfundur hennar er Roderick Haig-Brown. Í bókinni er að finna elstu skráðu lýsingu á Carey Special og sögu hennar. Hvoru tveggja hefur Roderick eftir Tommy Brayshaw sem sá um að myndskreyta bókina, en hann var einstaklega fær listamaður, fluguhnýtari og veiðimaður sem að sögn hitti höfund flugunnar, Thomas Carey árið 1934 í Bresku Kólumbíu í Kanada. Í bókinni er efnisvali flugunnar lýst svo; skott úr nokkrum fönum söðulfjaðrar fasana, búkurinn úr fönum stélfjaðrar fasana, vöf úr svörtum hnýtingarþræði, kragi úr hálsfjöður fasana. Flugan sé hnýtt á legglanga króka, allt frá #2 og niður í #12.

Þetta var greinilega uppskriftin sem ég var að leita að og Roderick segir jafnframt frá tilurð og forsögu flugunnar. Hér verð ég að setja þann fyrirvara að mjög margar útgáfur þessarar sögur eru til, en ég hallast svolítið að því að þetta sé sú sem kemst nærri sannleikanum, jafnvel þó hún stangist örlítið á við frásagnir annarra flugna sem koma við sögu.

Roderick getur þess að ef búkurinn hafi verið hnýttur úr dádýri (deer) þá hafi flugan gengið undir heitinu The Dredge en fer ekkert nánar út í hvaða efni hafi verið í skotti eða hringvafi. Annars rekur hann upphaf flugunnar til flugu sem gekk undir heitinu Monkey Faced Louise sem frumbyggi (e. First Nation, frumbyggi af indjánaættum) hnýtti upphaflega. Thomas Carey bætti hringvafinni fjöður við sem kraga að hætti Yorkshire-manna, en hann var einmitt fæddur og uppalinn í Yorkshire á Englandi þó hann hafi síðar sest að í Quesnal í Bresku Kólumbíu. Útgáfa Carey þótti einstaklega veiðin og fljótlega fékk hún viðurnefnið Carey Special og var orðin nokkuð þekkt í Bresku Kólumbíu þegar Brayshaw hitti Carey árið 1934. Á þeim fimm árum sem liðu þar til Roderick sendir frá The Western Angler hafði flugan þegar tekið nokkrum breytingum, m.a. fyrir áeggjan Dr. Lloyd A. Day frá Kelowna (sem ég veit engin deili á) sem ku hafa rekist á dautt múrmeldýr við Arthur Lake og fengið Carey til liðs við sig að nota í útfærslu á flugunni þar sem búkur hennar og skott voru úr múrmeldýri. Þess ber að geta að síðari tíma heimildir nefna umræddan Lloyd A. Day sem höfund Monkey Faced Louise, án þess að færa rök fyrir því, auk þess sem sömu heimildir slá iðulega saman þeim flugum sem hér hafa verið nefndar til sögunnar, þannig að ég tek þessum fullyrðingum með varúð.

Hvenær Carey settist niður og útfærði fluguna er óljóst og fáar heimildir til staðar. Vitað er að Carey fluttist til Bresku Kólumbíu upp úr lokum fyrri heimstyrjaldarinnar 1918 og eins og áður er getið, þá spjölluðu þeir Brayshaw og Carey saman árið 1934. Það eina sem hægt að segja með vissu er að hún hafi orðið til á milli 1918 og 1934. Nokkuð margir telja að Carey hafi komið flugunni á framfæri árið 1925, en eins og við vitum þá þarf ekki með einum að verða fótaskortur á tungunni þannig að ártal festist í munnmælum ef enginn andmælir því. Hvað sem öðru líður þá hefur Carey Special verið mjög vinsæl í Bresku Kólumbíu og víðar allt fram á þennan dag. Efnisval hennar hefur fylgt straumum og stefnum, en alltaf stendur þó upp úr að hringvaf flugunnar er óvanalega langt og mikilfenglegt. Ef þú hefur áhuga á að skoða þá útgáfu sem leit mín endaði á og ég tel vera þá upprunalegu, þá má skoða hana hérna eða smella á myndina af henni hér að neðan sem ég hnýtti skv. uppskriftinni.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *