Lokasprettur Febrúarflugna er hafinn og eftir því sem næst verður komist, þá verða það 138 hnýtarar sem koma hnífjafnir í mark þetta árið með um 1.200 flugur (þegar tveir dagar eru raunar eftir) og yfir 1.800 fylgjendur Febrúarflugna tryllast af fögnuði á bekknum.
Í kvöld, 27. febrúar verða tveir mjög áhugaverðir viðburðir í boði fyrir hnýtara og áhugafólk um flugur. Á Microbar í Kópavogi verður hnýtingakvöld á vegum 3 á stöng kl.18:00 þar sem nokkrir landsþekktir hnýtarar ætla að smella í flugur með gestum og hjá Stangaveiðifélagi Hafnarfjarðar verður Bjartur Ari Hansson á fyrsta hnýtingakvöldi vetrarins ásamt góðum gestum. Ef einhver á ekki heimangengt í kvöld, þá er óþarfi að örvænta því SVH mun vera með hnýtingakvöld annað hvert fimmtudagskvöld til vors og þangað eru alltaf allir velkomnir.
Undirtektir viðburða í febrúar hafa verið með eindæmum góðar, svo mjög að Stangaveiðifélag Borgarness ætlar að fylgja mánuðinum eftir og bjóða til hnýtingarkvölds þann 10. mars kl. 19:00 í Grillhúsinu í Borgarnesi og þann 14. mars ætla grasrótarsamtökin Fluguhnýtingar á Vesturlandi að standa fyrir hnýtingarkvöldi á Akranesi. Það er því um að gera að fylgjast vel með þó Febrúarflugum fari brátt að ljúka, það er nefnilega mikið líf með hnýturum eftir Febrúarflugur.










Senda ábendingu