Þá er önnur vika Febrúarflugna að baki og enn bætist í hópinn á Facebook, bæði af flugum og hnýturum. Skemmtilegt að sjá frumraunir og fjölda flugna sem hnýtarar koma á framfæri þetta árið. Flugurnar eru rétt tæplega 650 og af öllum stærðum og gerðum, eins og búast mátti við og hægt er að skoða þær allar á einum stað hérna.
Þriðja vikan að hefjast og nú hafa velunnarar Febrúarflugna heldur betur tekið við sér og frá og með deginum í dag og út næstu viku býðst hnýturum að heimsækja og taka þátt í fimm viðburðum sem geta glatt og frætt viðstadda um flugur og fluguhnýtingar:
- Laugardaginn 15. febrúar verður Eiður Kristjánsson í Flugubúllunni frá kl. 12 – 15, hnýtir og spjallar við gesti og gangandi.
- Sunnudaginn 16. febrúar hefur Flugurveiðifélag Árborgar og nágrennis vetrarstarf sitt með hnýtingakvöldi og kaffispjalli í Víkinni á Selfossi kl. 19:00 Að vanda eru allir velkomnir og minnt á að það er jafn stutt á Selfoss frá höfuðb.svæðinu eins og það er frá Selfossi til höfuðb.svæðisins.
- Mánudaginn 17. febrúar bíður Stangaveiðifélag Borgarness til hnýtingakvölds á Grillhúsinu í Borgarnesi kl. 19:30 þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér fluguhnýtingar, mætt með eigin græjur eða fengið lánaðar græjur. Minnt er á dreifbýlisregluna, jafnt langt á Borgarnes eins og þaðan til Reykjavíkur.
- Mánudaginn 17. febrúar verða þeir félagar Sigþór Steinn Ólafsson og Valgarður Ragnarsson hnýturum innan handar í Veiðiflugum frá kl. 19:30 þar sem áherslan verður á þurrflugur, púpur og straumflugur sem hafa reynst vel m.a. í Mývatnssveit og Laxárdal.
- Þriðjudaginn 18. febrúar verður síðan blásið til Barflugna á Ölver í Glæsibæ. Að samkomunni standa SVFR, Ertu að fá’ann?, Patagonia og Fasteignasalan Miklaborg. Á staðnum verða landsfrægir hnýtarar, allir hvattir til að mæta með eigin græjur og eiga sér skemmtilega kvöldstund. Húsið opnar kl. 19:00 og dagskrá kl. 20:00, tilboð á hamborgurum og kaldur á krana meðan birgðir endast.
Undirritaður verður á ferð og flugi á milli viðburða eins og við verður komið og ekki laust við að tilhlökkunin fyrir vikunni sé að verða óbærileg. Kærar þakkir, öll þið sem sýnið Febrúarflugum og hnýturum velvild í febrúar og ekki síst öll sem leggið til flugurnar sem hafa laðað þær 14.000 heimsóknir að Febrúarflugum sem komnar eru þetta árið.










Senda ábendingu