Flýtileiðir

Framundan í Febrúar

Þá er önnur vika Febrúarflugna að baki og enn bætist í hópinn á Facebook, bæði af flugum og hnýturum. Skemmtilegt að sjá frumraunir og fjölda flugna sem hnýtarar koma á framfæri þetta árið. Flugurnar eru rétt tæplega 650 og af öllum stærðum og gerðum, eins og búast mátti við og hægt er að skoða þær allar á einum stað hérna.

Þriðja vikan að hefjast og nú hafa velunnarar Febrúarflugna heldur betur tekið við sér og frá og með deginum í dag og út næstu viku býðst hnýturum að heimsækja og taka þátt í fimm viðburðum sem geta glatt og frætt viðstadda um flugur og fluguhnýtingar:

  • Laugardaginn 15. febrúar verður Eiður Kristjánsson í Flugubúllunni frá kl. 12 – 15, hnýtir og spjallar við gesti og gangandi.
  • Sunnudaginn 16. febrúar hefur Flugurveiðifélag Árborgar og nágrennis vetrarstarf sitt með hnýtingakvöldi og kaffispjalli í Víkinni á Selfossi kl. 19:00 Að vanda eru allir velkomnir og minnt á að það er jafn stutt á Selfoss frá höfuðb.svæðinu eins og það er frá Selfossi til höfuðb.svæðisins.
  • Mánudaginn 17. febrúar bíður Stangaveiðifélag Borgarness til hnýtingakvölds á Grillhúsinu í Borgarnesi kl. 19:30 þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér fluguhnýtingar, mætt með eigin græjur eða fengið lánaðar græjur. Minnt er á dreifbýlisregluna, jafnt langt á Borgarnes eins og þaðan til Reykjavíkur.
  • Mánudaginn 17. febrúar verða þeir félagar Sigþór Steinn Ólafsson og Valgarður Ragnarsson hnýturum innan handar í Veiðiflugum frá kl. 19:30 þar sem áherslan verður á þurrflugur, púpur og straumflugur sem hafa reynst vel m.a. í Mývatnssveit og Laxárdal.
  • Þriðjudaginn 18. febrúar verður síðan blásið til Barflugna á Ölver í Glæsibæ. Að samkomunni standa SVFR, Ertu að fá’ann?, Patagonia og Fasteignasalan Miklaborg. Á staðnum verða landsfrægir hnýtarar, allir hvattir til að mæta með eigin græjur og eiga sér skemmtilega kvöldstund. Húsið opnar kl. 19:00 og dagskrá kl. 20:00, tilboð á hamborgurum og kaldur á krana meðan birgðir endast.

Undirritaður verður á ferð og flugi á milli viðburða eins og við verður komið og ekki laust við að tilhlökkunin fyrir vikunni sé að verða óbærileg. Kærar þakkir, öll þið sem sýnið Febrúarflugum og hnýturum velvild í febrúar og ekki síst öll sem leggið til flugurnar sem hafa laðað þær 14.000 heimsóknir að Febrúarflugum sem komnar eru þetta árið.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *